Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, einn stofnenda Miðflokksins og fyrrverandi formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík, hefur sagt sig úr Miðflokknum.

Hann tilkynnti þetta í færslu á Facebook í dag og segir margar ástæður fyrir úrsögninni. Hann greinir þó ekki nánar frá þeim ástæðum en segist hafa ákveðið að hafa það fyrir sig.

„Þessum kafla lífs míns er hér með lokið. Er ekki leið í aðra flokka, en einhver ætti það að vera yrði það HLH-flokkurinn,“ skrifar Sveinn Hjörtur.

Hefur hann sagt sig úr öllum trúnaðarstörfum og mun ekki gegna stöðu varaborgarfulltrúa fyrir flokkinn í Reykjavík.

„Góðar stundir, ást og friður!“ skrifar hann í lok yfirlýsingarinnar.

Sveinn Hjörtur vakti mikla athygli í kosningamyndböndum flokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar þar sem hann tók á móti Vigdísi Hauksdóttur klæddur sem víkingur eftir að hún stökk úr flugvél.

Sveinn Hjörtur.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Yfirlýsing Sveins kemur aðeins fjórum dögum eftir að þingmaðurinn Birgir Þórarinsson lýsti því yfir að hann hyggðist ganga úr Miðflokknum og taka sæti á þingi hjá Sjálfstæðisflokknum.

Miðflokkurinn kom illa út úr Alþingiskosningunum og tapaði heilum fjórum þingmannssætum miðað við þá sjö þingmenn sem náðu kjöri fyrir flokkinn í kosningunum 2017.