Kjördæmamótið í bridge fór fram í Naustaskóla á Akureyri um helgina með stuðningi Niceair. Mótið er haldið árlega en féll niður um tveggja ára skeið vegna covid.

Spilarar mættu því óvenju kátir af öllu landinu í því skyni að reyna á heilann eftir ládeyðu í heimsfaraldri. Jafnan er barist um sigur fram á síðustu spil. Nú bar svo við að heimamenn, Norðurland eystra, náðu að vinna mótið fyrir síðustu umferð, svo mikill varð stigamunurinn milli sigurvegara og næstu sveita.

Lið Norðurlands eystra skoraði alls 425 stig, Reykjanes varð í öðru sæti með 302,25 stig og Vestfirðir hnepptu bronsið með 271 stig.

Reykjavík sem oftast hefur unnið mótið seinni ár varð að láta sér nægja 6. sætið og hefur gengið liðsins aldrei verið síðra í þessu móti.

Stefán Vilhjálmsson, fyrirliði sigurliðsins, þakkaði sigurinn í mótslok ekki bara góðri spilamennsku heldur einnig frábærum liðsanda.