Einn hefur verið lagður inn á Landspítala með COVID-19 en þetta staðfestir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala, í samtali við RÚV.

Að því er kemur fram í frétt RÚV um málið hefur viðbúnaðarstig á spítalanum verið hækkað yfir á hættustig. Sjúklingurinn er á legudeild en að sögn Más hafi þótt ástæða til að leggja hann inn.

Um er að ræða fyrstu innlögnina á sjúkrahús vegna sjúkdómsins frá því í vor en síðasti sjúklingurinn útskrifaðist af spítalanum um miðjan maí. Að sögn Más er innlögnin til merkis um frekari veikindi í samfélaginu sem ekki hafa fengist staðfest.

Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 11 í dag til að kynna breytingar á sóttvarnaraðgerðum en búist er við að samkomutakmarkanir verði hertar vegna fjölda innanlandssmita síðustu daga.

Samkvæmt upplýsingum á covid.is eru 39 með virkt smit hér á landi en frá upphafi hafa 1.872 tilfelli smits verið staðfest. Frá upphafi faraldursins hafa 105 sjúklingar með COVID-19 verið lagðir inn á Landspítala, 27 farið á gjögæslu og 15 í öndunarvél.

Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn Landspítala ákváð í gær að bregðast við fjölgun smita í gær en að mati nefndarinnar er sýking útbreiddari í samfélaginu en opinber gögn vitna um. Vegna þessa var ákveðið að grípa til aðgerða á spítalanum, til að mynda að takmarka aðgengi, en þær aðgerðir tóku gildi í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð.