Kostnaður við sýnatökur vegna kórónaveirunnar á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrstu tíu mánuði ársins var um 1,5 milljarðar króna.

Í Fréttablaðinu í gær sagði að kostnaðurinn hefði numið 460 milljónum króna en það var að sögn Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, aðeins sá hluti sem Sjúkratryggingar Íslands hafi greitt vegna sýnatökunnar á fyrstu tíu mánuðum ársins. Mismunurinn sé sértekjur, innheimtar greiðslur sjúkratryggðra og ósjúkratryggðra fyrir sýnatökurnar samkvæmt útgefinni gjaldskrá.

„Í Keflavík hafa verið tekin 250.254 sýni í PCR-greiningu á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrstu ellefu mánuði ársins,“ segir í samantekt heilsugæslunnar fyrir Fréttablaðið.

„Á Suðurlandsbraut 34 höfum við tekið 575.275 sýni; þar af eru hraðgreiningarpróf 220 þúsund.“

Óskar bendir á að fyrrgreindir 1,5 milljarðar króna feli ekki í sér kostnað Landspítalans við greiningu sýna úr PCR-prófum en þó alls kostnað varðandi greiningu hraðgreiningarprófa.

Tekjurnar komu aðallega frá ferðamönnum, bæði innlendum og erlendum, að mestu í sumar. Gjaldið var 4.000 og 7.000 krónur samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðuneytisins.

Frá 20. september til 7. desember hafa Sjúkratryggingar Íslands greitt samtals 238 milljónir króna vegna 70.773 hraðprófa.