Að minnsta kosti einn er látinn og fleiri slasaðir á fjölmennum mótmælum sem fara fram víða um Frakkland í dag. Mótmælin snúa helst að hækkndi eldsneytisverði í landinu og er mótmælt á tvö þúsund stöðum víðsvegar um landið, að því sem fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Mótmælin bera yfirskriftina „Gulu vestin“ og klæðast flestir mótmælendur skærgulum vestum til þess að stöðva umferð og vekja athygli á málstanum.

Kona lést er ekið var inn í hóp mótmælenda í suðausturhluta Frakklands í morgun. Hún var í hópi mótmælenda sem lokaði umferðargötu í Savory. Ökumaðurinn er kona sem var á leið með dóttur sína á spítala, en komst ekki leiðar sinnar vegna fimmtíu mótmælenda sem lokuðu götunni. Er hún sögð hafa fyllst örvæntingu að komast ekki leiðar sinnar og ekið inn í hópinn með þeim afleiðingum að mótmælandi lét lífið.

Fleiri eru sagðir hafa slasast er örvæntingafullir ökumenn aka á mótmælendur. Í norðanverðu Frakklandi slasaðist kona á áttræðisaldri alvarlega eftir að ökumaður ók á hóp mótmælenda. Ökumaðurinn ók á brott. 

Mótmælendur saka Emmanuel Macron, forseta Frakklands, um að hafa yfirgefið „litla manninn“ vegna hækkandi eldsneytisverðs. Stjórnmálamenn hafa lýst yfir áhyggjum og sagt ástandið eldfimt.

„Við erum mjög áhyggjufull. Það er mikilvægt að forðast áhættur,“ er haft eftir Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands.