Litlar breytingar verða á samkomutakmörkunum nú á föstudag þegar ný auglýsing, sem heilbrigðisráðherra gaf út í dag, tekur gildi. Áfram mega mest hundrað manns koma saman og verður tveggja metra reglan enn í gildi alls staðar nema í skólum og á milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum.

Breytingarnar sem ráðherra ákvað að gera á gildandi takmörkunum voru í öllu í samræmi við minnisblað sem sóttvarnalæknir skilaði í gær. Auglýsing ráðherrans tekur gildi næsta föstudag og er miðað við að hún gildi í tvær vikur, út fimmtudaginn 27. ágúst. Í framhalds- og háskólum verður heimilt að hafa einn metra á milli einstaklinga án þess að andlitsgrímur séu notaðar. Þar skal þó sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti minnst einu sinni á dag.

Snertingar verða þá heimilar á milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða tveggja metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppna og æfinga. Þá skulu aðrir en íþróttamennirnir, svo sem þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar íþróttahreyfinga, áfram virða tveggja metra regluna.

Engin breyting er gerð á grímuskyldu í almenningssamgöngum; þar sem ferð varir í 30 mínútur eða lengur er öllum farþegum skylt að nota andlitsgrímur. Hjúkrunarheimilum og öðrum heilbrigðisstofnunum er þá gert skylt að setja reglur um starfsemi sína, til dæmis um heimsóknir utanaðkomandi og fleira.