Einn ferða­mannanna sem lenti í snjó­flóði í Svarfaðar­dal nærri Dal­vík í gær er látinn. Það kemur fram í til­kynningu frá Lög­reglunni á Norður­landi eystra. Rann­sókn er enn í gangi á slysinu og kemur fram í til­kynningu lög­reglunnar að enn sé ó­ljóst hve­nær niður­stöður hennar liggja fyrir.

Þar segir að mennirnir þrír, sem allir eru banda­rískir, séu allir fæddir árið 1988 og eru því um 34 ára gamlir. Allir hlutu þeir al­var­lega á­verka og var einn þeirra látinn á vett­vangi. Hinir tveir voru fluttir á Sjúkra­húsið á Akur­eyri og annar þeirra síðan á Land­spítalann. Frekari upp­lýsingar um af­drif hans liggja ekki fyrir hjá lög­reglu á þessu stigi.

Mennirnir voru allir vanir fjalla­menn og voru vel búnir.

Fram kemur í til­kynningu lög­reglunnar að við­bragð­steymi Rauða krossins hafi verið kallað út og hafi farið til Dal­víkur til að huga að þeim við­bragðs­aðilum sem fyrstir voru á vett­vang.

Þá kemur fram að það hafi tekið lög­regluna nokkurn tíma að afla upp­lýsinga um að­stand­endur þess látna og að í nótt hafi þau notið lið­sinnis starfs­fólks sendi­ráðs Banda­ríkjanna við að til­kynna að­stand­endum um and­látið. Maðurinn sem lést var ein­hleypur og barn­laus.

Til­kynningin er hér að neðan.