Aðeins einn af þremur sakborningum situr nú enn í varðhaldi Lögreglunnar á Norðurlandi eystra vegna manndráps í Ólafsfirði aðfaranótt mánudags. Það kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni nú í kvöld. Maðurinn er í varðhaldi til mánudags en ákveðið verður um helgina hvort að farið verið fram á framlengingu.

Þar segir að rannsókn málsins miði vel og að einum hafi verið sleppt úr haldi í dag og að það þætti ekki spilla rannsóknarhagsmunum að hafa manneskjuna lengur í haldi. Á vef RÚV segir að manneskjan sem sé nú laus sé eiginkona hins látna.

Í tilkynningu lögreglunnar kemur jafnframt fram að heildarmynd málsins sé smám saman að skýrast en lögregla hefur tekið skýrslur af bæði vitnuð og grunuðum.

„Rannsókn af þessu tagi er umfangsmikil, flókin og tímafrek. Hún heldur nú áfram með yfirheyrslum og greiningu gagna. Enn eiga ýmsar réttarlæknisfræðilegar niðurstöður eftir að berast okkur og niðurstöður úr ýmsum tæknirannsóknum. Það geta liðið vikur eða mánuðir uns öll kurl verða komin til grafar í þessu máli og sennilega ekki margt sem við getum eða megum upplýsa um til viðbótar meðan málið er á rannsóknarstigi,“ segir enn fremur í tilkynningu lögreglunnar sem má sjá hér að neðan.