Efri hæð tólf hæða blokkar í bænum Surfsi­de norðan við Miami í Flórída hrundi í gærnótt um hálf tvö að staðar­tíma. Eitt and­lát hefur verið stað­fest og 99 manns er saknað. Um­fangs­miklar björgunar­að­gerðir standa enn yfir og björgunar­menn hafa dregið tugi manns úr rústunum.

Associa­ted Press greinir frá.

„Byggingin er bók­staf­lega eins og pönnu­kaka. Það er á­takan­legt því mér virðist sem það muni gera okkur erfiðara um vik að finna fólk á lífi,“ sagði Charles Bur­kett, bæjar­stjóri Surfsi­de.

Húsið var byggt árið 1981 og talið er að 55 í­búðir hafi verið í þeim hluta hússins sem hrundi en ekki er vitað hversu margir voru heima við þegar hæðin hrundi. Yfir­völd óttast þó að tala látinna gæti farið snar­lega hækkandi eftir því sem björgunar­að­gerðum miðar á­fram.

Yfir­völd hafa ekki tjáð sig um mögu­legar á­stæður hrunsins. Á mynd­bands­upp­tökum virðist mið­hluti hússins hrynja fyrst á meðan sá hluti þess sem er næstur hafinu sést riða til falls og hrynja nokkrum sekúndum síðar á sama tíma og gríðar­stórt ryk­ský um­vefur hverfið.

Biden lofar hjálp

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti hringdi í sýslu­stjórann Dani­ella Levine Cava og lofaði því að ríkis­stjórnin myndi veita alla þá að­stoð sem óskað yrði eftir við björgunar­að­gerðirnar.

„Við verðum til staðar,“ sagði Biden frá Hvíta húsinu.

Barry Cohen, 63 ára gamall íbúi í húsinu, sagði að hann hefði verið sofandi á­samt konu sinni þegar hann heyrði gríðar­leg læti sem hljómuðu eins og þruma. Þegar hjónin opnuðu dyrnar fram á gang sáu þau hrúgur af braki, ryk og reyk sem liðaðist um ganginn.

„Ég gat ekki komist út um dyrnar mínar. Það var ekkert nema gapandi hola af rústum,“ sagði Cohen, sem er fyrrum vara­bæjar­stjóri Surfsi­de. Hjónunum var að lokum bjargað úr húsinu af slökkvi­liðs­mönnum.