Fremur kalt var á landinu í júlí miðað við það sem verið hefur á öldinni og fram kemur á vef Veður­stofu Ís­land að júlí­mánuðurinn sé ýmist sá næst­kaldasti eða þriðji kaldastur síðustu 20 árin.

Meðal­hiti í Reykja­vík í júlí var 10,7 stig og er það mínus 1,3 stig fyrir neðan meðal­lags síðustu tíu ára. Það sama var uppi á tengingum á Akur­eyri þar sem meðal­hiti var 10,1 stig, sem er einnig 1,3 stigi fyrir neðan meðal­lag síðasta ára­tugar.

Hlýjast á Egils­stöðum

„Það eru alltaf á­kveðnar sveiflur í tíðar­farinu og líkt og kemur fram í veðuryfir­litinu er þetta kalt miðað við síðustu ár en í meðal­lagi miðað við árin 1960 til 1990,“ segir Daníel Þor­láks­son, Veður­fræðingur Veður­stofunnar, um málið í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hæsti hiti í júlí mældist 24,8 stig á Egils­staða­flug­velli. Mest frost mældist -2 stig á Gríms­stöðum á Fjöllum og Mið­fjarðar­nesi í blá­byrjun mánaðarins.

,,Ásbyrgi er staðurinn," segir veðurfræðingur um spá næstu viku.
Fréttablaðið/Pjetur

Ekki hægt að spá í næstu sumur

Á síðasta ári var júlí­mánuður sér­lega hlýr en þá var meðal­hiti í höfuð­borginni 13,4 stig og 12,1 stig á Akur­eyri. Daníel segir fyrri sumur ekki gefa vís­bendingu um það sem koma skal á næstu árum.

„Það er ekki hægt að spá fyrir um það, sumarið fyrir tveimur árum var til dæmis mikið rigningar­sumar og árinu seinna var mjög sól­ríkt og hlýtt sumar þannig að það er bara á­kveðinn breyti­leiki í þessu öllu saman.“

Ás­byrgi er staðurinn

Búist er við því að á­fram blási hlýjar suð­lægar áttir í næstu viku en Daníel segir út­lit vera fyrir vætu­tíð sunnan og vestan­lands. „Það verður nokkuð skýjað og rakt og þá nær hitinn nú ekki að ná háum hæðum.“

Lík­lega mun hitinn þó ná að fara upp í allt að tuttugu stig á norð­austur­fjórðungi landsins í næstu viku. „Ás­byrgi er staðurinn,“ segir Daníel viss í sinni sök og má teljast lík­legt að í­búar Norð­austur­lands fagni þeirri spá.