Sakamál á hendur sex einstaklingum, þar af fimm úr sömu fjölskyldu, var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Málið varðar stórfellda kannabisframleiðslu og peningaþvætti en það eru bræður, foreldrar þeirra og frændi sem ákærð eru í málinu. Þau neita öll sök, nema annar bræðranna sem játar sök í einum ákærulið. Verjandi hans, Sveinn Andri Sveinsson, greindi frá því við þingfestingu í gær að skjólstæðingur hans játaði sök í þeim ákærulið sem snýr að ræktun kannabisplantna.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kom upp um framleiðsluna á Smiðjuvegi í Kópavogi föstudaginn 9. september 2016. Öll sex voru handtekin í aðgerðum lögreglu og voru bræðurnir og faðir þeirra úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald.

Lögregla lagði hald á 522 kannabisplöntur, 9,4 kíló af marijúana og 17,3 kíló af kannabislaufum og gerð er krafa um upptöku á efnunum í ákærunni.

Fréttablaðið greindi frá málinu þegar það kom upp árið 2016 og að sögn lögreglu var ræktunin mjög fullkomin og búnaðurinn eftir því. Það hefði tekið hóp lögreglumanna margar klukkustundir að taka ræktunina niður. Þá hefði einnig verið lagt hald á umtalsverða fjármuni sem taldir voru tilkomnir vegna sölu á fíkniefnum.

Fréttablaðið greindi frá málinu í september 2016.
Fréttablaðið

Í ákærunni er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar, upptöku og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er upptöku krafist á fjármunum sem lögregla lagði hald á hjá sexmenningunum, rúmlega 20 milljónir króna, sem talið er að sé ávinningur af ræktuninni.

Einnig er gerð krafa um upptöku á haldlögðum verðmætum er tengjast ræktuninni sjálfri, sem dæmi plöntunum sjálfum og fíkniefnunum, ásamt ýmsum tækjum og tólum sem notuð voru til ræktunar á plöntunum. Má þar nefna 110 gróðurhúsalampa, 31 viftu, 110 straumbreyta, 66 svarta plastbakka, 13 þurrknetsgrindur, 12 loftsíur og 7 loftsblásara auk fleiri verðmæta.

Í ákæru er barnsmóðir eins ákærða krafin um upptöku ávinnings vegna fjármuna sem haldlagðir voru úr bankahólfi hennar ásamt fjármunum úr bankahólfum tveggja uppgerðra þrotabúa sem námu samtals tæpum sjö milljónum króna.

Við þingfestinguna í gær kom fram að mögulega yrðu kröfurnar þrjár til upptöku ávinnings á hendur barnsmóðurinni og þrotabúunum tveimur vísað frá. Sú ákvörðun verður tekin í næstu viku.