Einn Íslendingur er á meðal 2700 þátttakenda í hópmálsókn austurrísku neytendasamtakanna vegna COVID-19 smita frá skíðabæjunum Ischgl og Paznauntal í Austurríki. Beinist kæran gegn Gunther Platter ríkisstjóra Týrol héraðs, heilbrigðisfulltrúum hans, bæjarstjórum í umræddum bæjum og skíðalyftufyrirtækjum sem starfa á svæðinu. Eru þau sökuð um að hafa stefnt almannahag í hættu, valda útbreiðslu næmra sjúkdóma og misnotkun valds.

Upplýst hefur verið í austurrískum fjölmiðlum að yfirvöld og einkaaðilar á staðnum hafi reynt að hylma yfir útbreiðsluna á staðnum. En íslensk sóttvarnaryfirvöld létu Austurríkismenn vita að mörg smit mætti rekja til umræddra skíðasvæða.

Langflestir sem taka þátt í málsókninni eru þýskir ferðamenn, eða 2295, manns. En 90 prósent COVID-19 tilfella sem rakin eru frá Ischgl hafa komið upp í Þýskalandi. Aðrir þátttakendur koma víða frá, þar af nokkrir tugir frá Sviss, Bretlandi, Hollandi og Danmörku. Einnig öllum Norðurlöndunum, Bandaríkjunum, Rússlandi, Singapúr, Zimbabwe og fleiri löndum. Þá eru 116 heimamenn komnir á listann. Ekki allir eru ferðamenn heldur nokkuð um árstíðabundna starfsmenn.

Flestir kærendanna hafa verið í sóttkvíum á heimilum sínum en vitað er um að minnsta kosti 14 sem hafa lagst inn á gjörgæsludeildir. Meðal kærenda eru aðstandendur 2 látinna karlmanna.

Samkvæmt Peter Kolba hjá samtökunum er málsóknin gerð til að setja þrýsting á dómsmálaráðherrann Ölmu Zadic og ríkissaksóknara. „Augu Evrópu beinast að því hvernig Austurríki bregst við. Það er í þágu landsins alls og Týrol héraðs að sýna fullkomið gagnsæi og skilvirkni,“ segir Kolba.

Þátttakendur í hópmálsókninni greiða 30 evru gjald og er það eina áhætta þeirra af málinu. Gangi það eftir að hafin verði opinber rannsókn verður hægt að skoða það að krefja austurríska ríkið sjálft um miskabætur, helst með samningum en annars málsókn.

Íslensku Iscgl fararnir voru fyrsti stóri hópurinn hér til að smitast af COVID-19. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur einn þeirra veikst alvarlega og er nú á gjörgæsludeild. Aðrir hafa verið að losna úr einangrun.

Halda íslensku fararnir góðu talsambandi sín á milli, enda ferðast lengi saman til Ischgl. Rætt er um hvort að „flautandi þjónn“, það er að segja þjónn með litla dómaraflautu, á hótelveitingastað hafi verið einn helsti smitberinn. Var þetta fyrsti starfsmaður umrædds hótels sem greindist með COVID-19, en veitingastaðurinn er mjög þétt setinn og flestir þeir Íslendingar sem borðuðu þar smituðust.