Alls eru nú 21 sjúk­lingur inni­liggjandi á Land­spítala vegna Co­vid en af þeim eru tveir á gjör­gæslu, annar þeirra í öndunar­vél. Þannig fækkar þeim sem eru inni­liggjandi á gjör­gæslu um einn á milli daga en fjölgar um einn í öndunar­vél.

Á Co­vid-göngu­deild Land­spítala eru nú 1447 og hafa þeir aldrei verið fleiri frá upp­hafi far­aldursins. Af þeim sem eru í eftir­liti eru 262 börn. Enginn ein­stak­lingur er á rauðu að svo stöddu á deildinni en 44 flokkast sem gulir og þurfa því nánara eftir­lit.

49 þurft að leggjast inn í þessari bylgju

Tölu­verður fjöldi smita er nú að greinast dag­lega en 119 greindust með veiruna í gær sam­kvæmt upp­lýsingum á co­vid.is. Alls eru nú 1.453 í ein­angrun og 2.333 í sótt­kví. Flestir eru á aldrinum 19 til 29 ára og eru lang­flestir á höfuð­borgar­svæðinu. 261 barn er ein­angrun og þar af tíu undir eins árs

Í heildina hafa 49 sjúk­lingar þurft á inn­lögn á Land­spítala að halda í þessari bylgju far­aldursins, þar af fimm á gjörgæslu, og er við­búið að inn­lögnum muni fjölga á næstunni í ljósi stöðu far­aldursins innan­lands. Um þriðjungur þeirra sem hafa þurft að leggjast inn voru ekki bólusettir.

Spítalinn er nú á hættu­stigi og hefur verið biðlað til starfs­fólks að snúa aftur úr sumar­fríi vegna mann­eklu.