Einn þeirra þriggja einstaklinga sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald í manndrápsmálinu í Ólafsfirði hefur verið látinn laus.

Héraðsdómur Norðurlands eystra hafði úrskurðað þau öll í viku gæsluvarðhald. Tveir einstaklingana kærðu úrskurðinn til Landsréttar og seint í gær staðfesti Landsréttur annan úrskurðinn, en vísaði hinum frá. Sá aðili var látinn laus í kjölfarið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu en þar segir að rannsókninni miði vel. Skýrslutökur yfir sakborningunum hafa farið fram í dag og í gær. Og þá hefur réttarkrufning á þeim látna farið fram.

„Rannsókn lögreglu miðar að því að leiða í ljós hvað átti sér stað í umrætt sinn en enn eru ýmsir þættir málsins óljósir. Rannsókn beinist meðal annars að því að upplýsa þá.“ segir í tilkynningu lögreglu, en þar kemur jafnframt fram að ekki sé hægt að upplýsa frekar um málið að svo stöddu.