Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer fram á gæsluvarðhald yfir einum karlmanni í tengslum við rannsókn lögreglu á manndrápi í Kórahverfinu í gær. Maðurinn er erlendur ríkisborgari og var handtekinn í gær ásamt tveimur öðrum vegna málsins.

Íslenskur karlmaður um þrítugt lést í gær á Landspítalanum af áverkum eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás fyrir utan heimili sitt í Kópavogi.

Þrír voru handteknir í gær og var tveimur sleppt í dag og er búið að fara fram á gæsluvarðhald yfir einum og verður hann leiddur fyrir dómara síðar í dag. Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, staðfestir þetta í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Málið er á frumstigi og er rannsakað sem manndráp. Ekki liggur fyrir hvernig mennirnir þekkjast.

Fréttin hefur verið uppfærð