Roger Stone, einn helsti banda­maður og kosninga­ráð­gjafi Donald Trump Banda­ríkja­for­seta, var í gær dæmdur í 40 mánaða fangelsi fyrir að hindra fram­gang rann­sóknar á kosningar­her­ferð for­setans árið 2016 og að hóta vitni í tengslum við málið. Stone var hand­tekinn í janúar í fyrra vegna málsins og var sak­felldur síðasta haust.

Trump hefur harð­lega gagn­rýnt dóm Stone en sak­sóknarar í málinu kröfðust þess upp­runa­lega að hann yrði dæmdur í sjö til níu ára fangelsi. Dóms­mála­ráð­herra Banda­ríkjanna Willi­am P. Barr hafnaði þeirri til­lögu og héldu margir því fram að á­kvörðun Barr hafi verið vegna for­setans. Barr er sagður í­huga að segja af sér vegna málsins.

Stone hefur á­valt haldið því fram að hann sé sak­laus í málinu og að það sé pólitísks eðlis. Síðast­liðna viku tjáði Trump sig um málið á Twitter þar sem hann hélt því fram að Stone ætti rétt á nýjum réttar­höldum en Trump hélt því einnig fram að líkur Stone á sýknu væru mjög góðar.

Ekki saksóttur fyrir að standa með forsetanum

Við dóms­upp­kvaðningu í Was­hington sagði dómari í málinu, Amy Ber­man Jack­son, að Stone væri ó­fram­færinn og að hann þarfnaðist sí­fellt að­stoðar. Þá sagði hún að Stone hafi ekki verið sak­sóttur fyrir að standa með for­setanum heldur hafi hann verið „sak­sóttur fyrir að hylma yfir með for­setanum.“

Auk 40 mánaða fangelsis­vistar var Stone einnig dæmdur í tveggja ára skil­orð. Að því er kemur fram í frétt CNN um málið í­hugar Stone nú að biðja um ný réttar­höld en hann bíður enn eftir niður­stöðum hvað sak­fellinguna varðar, þar sem hann sakaði kvið­dóminn um mis­ferli.

Í kjölfar dómsuppkvaðningu í málinu tjáði Trump sig aftur á Twitter þar sem hann sakaði Alríkislögregluna í Bandaríkjunum vera hlutdrægna og að ekki hafi verið tekið eins á Demókrötum sem einnig voru sakaðir um hin ýmsu brot.