Búið er að handtaka sænskan karlmann, 22 ára að aldri, vegna sprengingarinnar við aðalskrifstofu dönsku skattstofunnar í síðustu viku. Lýst er eftir öðrum Svía, 23 ára, sem einnig er grunaður um aðild að sprengjuárásinni. Maðurinn var að sögn danska ríkisútvarpinu handtekinn í Malmö í gærkvöldi.

Engin alvarleg slys urðu á fólki þegar sprengja sprakk fyrir utan skattstofuna sjötta ágúst en einn einstaklingur þurfti að fara upp á slysadeild. Töluverðar skemmdir urðu á framhlið byggingarinnar og lögreglan sagði að um mjög kröftuga sprengju væri að ræða.

Ekki um tilviljun að ræða

Jørgen Bergen Skov, rann­sókn­ar­lög­reglumaður, sagði á blaðamannafundi að sprengingin hafi ekki verið slys. „Þetta var ekki tilviljanakennt atvik, einhver gerði þetta vísvitandi.“ Hann tekur þó fram að árásinni hafi ekki verið beint að fólki heldur að byggingunni.

Önnur sprenging sprakk síðan tíunda ágúst fyrir framan lögreglustöðina í Kaupmannahöfn. Ekki er ljóst hvort að sprengingarnar tvær tengist.

Sprengjusérfræðingurinn Erik Lauritzen sagði í samtali við danska fjölmiðla að fjöldi sprengnanna væri óhefðbundinn og það þyrfti að horfa allt að þrjátíu ár aftur í tímann til að finna viðlíka sprengjufjölda í borginni. Alls hafa níu sprengjur sprungið í borginni á undir hálfu ári.