Einn starfsmaður álþynnuverksmiðjunnar TDK Foil Iceland í Krossanesi við Akureyri var fluttur á slysadeild með snert af reykeitrun á þriðja tímanum, eftir að eldur kviknaði í framleiðslutæki í verksmiðjunni.
Að sögn Vigfúsar Bjarkasonar, varðstjóra slökkviliðsins á Akureyri, voru á milli tíu og tuttugu starfsmenn í verksmiðjunni þegar eldurinn kom upp. Þeir hafi hins vegar allir verið komnir út þegar slökkvilið bar að garði.
„Það var einn einstaklingur fluttur á slysadeild, mögulega með snert af reykeitrun. En ég hef ekki fengið nánari fregnir af því,“ segir Vigfús.
Vigfús segir að tveir slökkviliðsbílar, lögregla og nokkrir sjúkrabílar hafi verið sendir á vettvang eftir að tilkynning barst. Talsverður eldur hafi verið í vélinni, en betur hafi farið en á horfðist.
„Þetta gekk nokkuð greiðlega en það var mikill eldur í einu af vinnutækjum verksmiðjunnar. Við þurftum að slá út þar sem það var mikið af háspennu þarna. Þetta gekk allt nokkuð hratt fyrir sig,“ segir Vigfús.
Slökkvistarfið tók tæplega tvo tíma í það heila og segir Vigfús að síðustu menn hafi yfirgefið svæðið laust upp úr klukkan fjögur.
„Við vorum að vakta svæðið og slökkva í smá glæðum, en erum búnir að afhenda rannsóknarlögreglu vettvanginn og starfsmennirnir vinna að því að koma verksmiðjunni í gang aftur. Það er að segja þau tæki sem eru í lagi,“ segir Vigfús.
Þá séu eldsupptök ókunn að svo stöddu.