Einn starfs­maður ál­þynnu­verk­smiðjunnar TDK Foil Iceland í Krossa­nesi við Akur­eyri var fluttur á slysa­deild með snert af reyk­eitrun á þriðja tímanum, eftir að eldur kviknaði í fram­leiðslu­tæki í verk­smiðjunni.

Að sögn Vig­fúsar Bjarka­sonar, varð­stjóra slökkvi­liðsins á Akur­eyri, voru á milli tíu og tuttugu starfs­menn í verk­smiðjunni þegar eldurinn kom upp. Þeir hafi hins vegar allir verið komnir út þegar slökkvi­lið bar að garði.

„Það var einn ein­stak­lingur fluttur á slysa­deild, mögu­lega með snert af reyk­eitrun. En ég hef ekki fengið nánari fregnir af því,“ segir Vig­fús.

Vig­fús segir að tveir slökkvi­liðs­bílar, lög­regla og nokkrir sjúkra­bílar hafi verið sendir á vett­vang eftir að til­kynning barst. Tals­verður eldur hafi verið í vélinni, en betur hafi farið en á horfðist.

„Þetta gekk nokkuð greið­lega en það var mikill eldur í einu af vinnu­tækjum verk­smiðjunnar. Við þurftum að slá út þar sem það var mikið af há­spennu þarna. Þetta gekk allt nokkuð hratt fyrir sig,“ segir Vig­fús.

Slökkvi­starfið tók tæp­lega tvo tíma í það heila og segir Vig­fús að síðustu menn hafi yfir­gefið svæðið laust upp úr klukkan fjögur.

„Við vorum að vakta svæðið og slökkva í smá glæðum, en erum búnir að af­henda rann­sóknar­lög­reglu vett­vanginn og starfs­mennirnir vinna að því að koma verk­smiðjunni í gang aftur. Það er að segja þau tæki sem eru í lagi,“ segir Vig­fús.

Þá séu elds­upp­tök ó­kunn að svo stöddu.