Maður sem var inni í einbýlishúsi í Kaldaseli þegar eldur kviknaði var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild í morgun. Árni Óskar Árnason, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir ekki vitað hvert ástand mannsins sé að svo stöddu.
Slökkviliði var kallað út á sjöunda tímanum í morgun vegna eldsvoðans og segir Árni húsið hafa verið í ljósum logum þegar viðbragðaðila bar að garði. Allt tiltækt lið var kallað út og voru fjórir dælubílar, einn körfubíll og þrír sjúkrabílar sendir á vettvang.
Mikinn reyk lagði af húsinu og var íbúum í Seljahverfi ráðlagt að loka gluggum og hækka í ofnum vegna reyksins.
Búið að slökkva eldinn
Verið er að rannsaka tildrög eldsins en Árni sagðist ekki vita til þess að grunur lægi á því að um íkveikju væri að ræða. Málið er í rannsókn lögreglu.
Slökkviliðið réð niðurlögum eldsins á ellefta tímanum í dag og segir Árni aðgerðir hafa gengið vel. „Það eru um tíu mínútur síðan slökkt var í síðustu glæðunum.“ Slökkviliðsfólk sé nú að vinna í lokafrágangi og eru tíu manns enn á staðnum.
Árni kveðst búast við því að störfum slökkviliðsins ljúki á næsta klukkutímanum. Jaðarseli var lokað um tíma en gatan hefur nú verið opnuð aftur og eru almenningssamgöngur á svæðinu því komnar aftur í eðlilegt horf.