Maður sem var inni í ein­býlis­húsi í Kalda­seli þegar eldur kviknaði var fluttur með sjúkra­bíl á slysa­deild í morgun. Árni Óskar Árna­son, varð­stjóri hjá Slökkvi­liði höfuð­borgar­svæðisins, segir ekki vitað hvert á­stand mannsins sé að svo stöddu.

Slökkvi­liði var kallað út á sjöunda tímanum í morgun vegna elds­voðans og segir Árni húsið hafa verið í ljósum logum þegar við­bragð­aðila bar að garði. Allt til­tækt lið var kallað út og voru fjórir dælu­bílar, einn körfu­bíll og þrír sjúkra­bílar sendir á vett­vang.

Mikinn reyk lagði af húsinu og var í­búum í Selja­hverfi ráð­lagt að loka gluggum og hækka í ofnum vegna reyksins.

Búið að slökkva eldinn

Verið er að rann­saka tildrög eldsins en Árni sagðist ekki vita til þess að grunur lægi á því að um í­kveikju væri að ræða. Málið er í rann­sókn lög­reglu.

Slökkvi­liðið réð niður­lögum eldsins á ellefta tímanum í dag og segir Árni að­gerðir hafa gengið vel. „Það eru um tíu mínútur síðan slökkt var í síðustu glæðunum.“ Slökkvi­liðs­fólk sé nú að vinna í loka­frá­gangi og eru tíu manns enn á staðnum.

Árni kveðst búast við því að störfum slökkvi­liðsins ljúki á næsta klukku­tímanum. Jaðar­seli var lokað um tíma en gatan hefur nú verið opnuð aftur og eru al­mennings­sam­göngur á svæðinu því komnar aftur í eðli­legt horf.