Að minnsta kosti einn hefur nú látist eftir aur­skriður í bænum Ask í Gjer­drum-héraði í Noregi en lög­reglan greindi frá málinu á blaða­manna­fundi í dag. Björgunar­að­gerðir hafa staðið yfir í bænum frá því á mið­viku­dag en þar sem jörðin er enn á hreyfingu hefur björgunar­starf reynst veru­lega erfitt.

Lög­regla hefur ekki gefið upp nánari upp­lýsingar um kyn eða aldur ein­stak­lingsins sem fannst látinn en verið er að láta að­stand­endur vita af málinu. Enn er níu manns saknað á svæðinu en Bjørn Nu­land, sem sér um björgunar­að­gerðirnar, sagðist í sam­tali við NRK trúa að eftir­lif­endur myndu finnast.

Björgunar­sveitir hafa nú hafið leit á rauðu svæði við aur­skriðurnar en hingað til hefur ekki verið hægt að fara inn á svæðið. Leit hefur nú staðið yfir í tvo sólar­hringa en meðal þeirra sem leitað eru barns­hafandi kona og tvö börn.

Myndir og mynd­bönd af vett­vangi sýna mikla eyði­leggingu en rúm­lega þúsund manns þurftu að yfir­gefa heimili sín á mið­viku­daginn og hefur þurft að rýma stærri svæði frá þeim tíma. Í einu mynd­bandi sem miðillinn VG birtir má sjá heilt hús hverfa með skriðunni. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.