Að minnsta kosti einn er látinn og sex alvarlega slasaðir eftir kraftmikla sprengingu í efnaverksmiðju í hafnarborginni Tarragona, rétt sunnan við Barcelona í Katalóníu, Spáni. Fjallað er um þetta í spænskum fjölmiðlum og hafa myndbönd birst á Twitter af brunanum.

Sprengingin varð klukkan 18:30 í kvöld að staðartíma. Tveir af þeim sex sem eru slasaðir eru með mjög alvarleg brunasár eftir sprenginguna sem varð í verksmiðjuhverfi. Einstaklingurinn sem lést virðist hafa látist eftir að bygging hrundi í Torreforta hverfinu, sennilega vegna höggbylgjunnar.

Slökkviliðsmenn og lögregla eru að svæðinu að reyna að slökkva eldinn en búið er að útiloka að eiturefni hafi borist út í loftið að því er fram kemur í frétt Vozpópuli.

Yfirvöld hafa kallað eftir aðstoð allra slökkviliða á svæðinu.

Alfons López Tena, fyrrverandi þingmaður í Katalóníu birti eftirfarandi myndband fyrr í kvöld. Mikill reykur liggur yfir svæðinu.

Verksmiðjan er einstök á Spáni en hún framleiðir efnið etýlenoxíð og er talið að efnið hafi valdið sprengingunni að einhverju leyti. Efnið er eldfimt er notað í framleiðslu á dauðhreinsunarbúnaði fyrir sjúkrahús.

Sprengingin var svo kraftmikil að fólk í nærliggjandi sveitarfélögum fundu fyrir sprengingunni. Gluggarnir í nærliggjandi byggingum sprungu vegna höggbylgjunnar sem kom í kjölfar sprengingunnar.

Íbúum La Canonja hverfisins hefur verið ráðlagt að loka gluggum og dyrum.