Í dag gerir spáin ráð fyrir að íbúar á Norðaustur- og Austurlandi fái einn besta dag ársins. Almennt má reikna með þokkalegasta veðri á landinu öllu en hæstu hitatölurnar verða samt sem áður norðaustantil og þar mun sólin líka skína glatt.

Aðrir landshlutar munu fá stöku skúri og eins verður fremur skýjað um landið sunnan- og vestanvert. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofunni.

Er spáð suðlægri átt, 5 til 13 metrum á sekúndu en heldur hægari síðdegis. Yfirleitt léttskýjað norðaustantil, hiti 7 til 16 stig í dag og hlýjast norðaustanlands eins og áður segir.

Á morgun kemur lægð hraðbyri sunnan úr höfum, en fer fyrir austan land og vindur snýst til norðaustanáttar. Hvessir einna mest austast á landinu og eins kólnar þar talsvert en líklega ná ekki skil lægðarinnar nema lítið inná Austurland. Aðrir landshlutar sleppa að mestu leiti við úrkomu en hitatölur lækka, þó ekki mikið sunnan- og vestantil að deginum.

Veðurhorfur næstu daga:

Á laugardag:
Norðan- og norðaustan 5-13 m/s og dálítil rigning eða slydda austast á landinu, annars skýjað með köflum, en bjartviðri SV-lands. Hiti frá 2 stigum NA-lands að 16 stig á S-landi.

Á sunnudag:
Vaxandi suðaustanátt og þykknar upp, 10-15 m/s og rigning undir kvöld, en þurrt að kalla NA-lands. Hlýnandi veður fyrir norðan og austan.

Á mánudag:
Suðlæg átt með vætu víða á landinu, en þurrviðri og hlýindum NA-til.

Á þriðjudag:
Vestlæg átt og víða dálítil væta, einkum þó V til. Hiti víða 5 til 10 stig.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir suðvestanátt með vætu á V-verðu landinu, en annars þurrt og milt veður.