„Þetta gerir Skólamat sennilega að einum af stærsta vegan „veitingastað“ landsins,“ segir Katla Hlöðversdóttir, markaðsstjóri Skólamatar.

Fjórtán prósent grunnskólanemenda sem borða mat frá Skólamat kjósa að borða vegan mat, að öllu leyti eða hluta, á hverjum degi. Væri það yfirfært á fjölda eru það um 1.500 grunnskólanemendur á hverjum degi. Skólamatur þjónustar 33 grunnskóla og 17 leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.

Katla segir að ástæður þess að krakkarnir vilji veganréttina séu margvíslegar.

„Sumir neyta ekki dýraafurða og aðrir nýta sér þennan kost af umhverfisástæðum. Svo eru margir sem velja veganmat sem góðan valkost og tilbreytingu.“

Réttirnir eru hannaðir í samstarfi við grænkerann og fjölmiðlakonuna Guðrúnu Sóleyju.
Lilja Jónsdóttir

Árið 2015 hóf Skólamatur að bjóða upp á grænmetisrétt sem hliðarrétt við aðalrétt dagsins. Árið 2017 var ákveðið að allir réttirnir yrðu 100 prósent vegan. Þá var hlutfall af heildarmat sem þau sendu frá sér vegan um fimm prósent en er nú um 14 prósent eins og áður segir. Það er því þreföldun á fjórum árum.

Í dag er það þannig að á hverjum degi stendur öllum viðskiptavinum Skólamatar til boða veganréttur samhliða aðalrétti og ekki er gerð krafa um að skrá sig sérstaklega sem vegan til þess að nýta sér þessa þjónustu.

Skólamatur hóf samstarf við grænkerann og fjölmiðlakonuna Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur en hún hannaði fyrir þau veganrétti sem eru væntanlegir á matseðilinn.

Katla segir að vegna samkomutakmarkana og breytinga í starfsemi mötuneyta hafi þau ekki enn fengið tækifæri til að hafa eins mikil áhrif á framsetningu matarins og þau vilja og þess vegna hafi veganréttirnir sem þau hönnuðu með Guðrúnu Sóleyju ekki verið eins sýnilegir og stefnt var að.

„En það horfir nú til betri vegar með hækkandi sól og við hlökkum svo sannarlega til að kynna glænýja veganrétti fyrir viðskiptavinum okkar,“ segir Katla.

Þrátt fyrir þessa erfiðleika segir Katla að viðtökurnar hafi verið jákvæðar og frá því að samstarfið hófst hafi fjölgað í hópi þeirra grunnskóla sem eiga í viðskiptum við þau.

„Sumir hafa komið í viðskipti sérstaklega vegna þessa möguleika,“ segir Katla.

Hún segir áhugann í dag mun meiri í grunnskólum en í leikskólum. Hún telur að það megi rekja til aldurs barnanna og möguleika þeirra á að taka ákvörðun sjálf um það sem þau eiga að borða.

„Við hjá Skólamat fylgjumst þó náið með þörfum viðskiptavina okkar og að okkar mati teljum við líklegt að áhuginn fyrir veganréttum muni aukast í leikskólum í takt við aukninguna í grunnskólum þegar fram líða stundir,“ segir Katla.