„Þetta eru einkennilegar kvaðir og þær verða að vera skýrar í grunnsamningum til að geta haldið,“ segir Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, um að Þingvallanefnd hafi sett skýrt ákvæði um útleigu á sumarhúsum í lóðaleigusamninga sína fyrir næstu tíu ár.

Sumarhúsaeigendur mega ekki leigja bústaði sína í gegnum Airbnb eða aðrar sambærilegar leigur eins og sagði frá í Fréttablaðinu í gær.

Sumarhús á Þingvöllum.
Fréttablaðið/Pjetur

Sigurður segir að slíkar ráðstöfunarhömlur séu sér ekki að skapi.

„Ég veit ekki hvernig leigusamningarnir eru eða hvort þetta sé eftir á komið. Það er ekki hægt að setja svona ákvæði einhliða inn. Það er ekki hægt að búa til kvöð þannig að núverandi eigendur hljóta að hafa samþykkt þetta,“ segir Sigurður.

Um 70 sumarhús eru innan þjóðgarðsins og hafði Þingvallanefnd fengið nokkrar fyrirspurnir frá sumarbústaðaeigendum sem vildu fá að setja hús sín á leigusíður en þeim var ávallt hafnað.

„Við vildum setja þetta skýrt inn þannig að það væri ekki neinn vafi,“ sagði Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, í blaðinu í gær.