Fimm einstaklingar í sömu fjölskyldu skulu sæta einangrun í tíu daga vegna Covid-19 smita þrátt fyrir að vera einkennalausir.

Fjölskyldan lét reyna á lögmæti einangrunarinnar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og tapaði. Héraðsdómur staðfestir ákvörðun sóttvarnalæknis en RÚV greindi fyrst frá.

Arnar Þór Jónsson, lögmaður fimmenninganna, vildi láta reyna á hvort PCR-próf væru þannig vísindalega marktæk að hægt væri að svipta einkennalausa einstaklinga frelsi.

Þrátt fyrir dóm héraðsdóms skoðar sóttvarnalæknir leiðbeiningar um að stytta sóttkví hjá einkennalausum eins og Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) hefur mælt með. Spurningum hefur verið velt upp um hvort dómurinn verði fordæmisgefandi og hafi áhrif á ákvörðun sóttvarnayfirvalda hér á landi.

„Við styðjumst við þau gögn sem liggja fyrir og leiðbeiningar og tilmæli ábyrgra stofnana eins og Sóttvarnastofnunar Evrópu og Alþjóðaheilbrigðisstofnunar og Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna. Þetta eru áreiðanlegar stofnanir sem byggja sín tilmæli á áreiðanlegum gögnum,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Við horfum sterkt til þessara aðila og skoðum að sjálfsögðu, í ljósi nýju leiðbeininganna hjá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, þá munum við að sjálfsögðu skoða okkar leiðbeiningar.“