Mark Zuckerberg stofnandi Facebook segir að samfélagsmiðillinn eigi eftir fremsta megni að forðast að hindra málfrelsi á netinu.

„Ég trúi því sterklega að Facebook eigi ekki að ákvarða um hvað sé satt í öllu því sem fólk segir á netinu,“ sagði Zuckerberg í viðtali við sjónvarpsstöðina Fox News. „Einkafyrirtæki ættu líklega ekki að vera í þeirri stöðu að gera það.“

Fyrir tveimur árum lýsti Zuckerberg yfir að Facebook þyrfti að gera meira til að sporna við röngum upplýsingum, en nýjustu ummæli Zuckerbergs koma í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti sakaði Twitter um ritskoðun fyrr í vikunni.

Twitter setti fyrirvara á færslu Trumps um að um ósannindi væri að ræða. Forsetinn hótaði þá að setja strangar reglur eða jafnvel loka samfélagsmiðlum sem hann sagði hindra málflutning íhaldsmanna.

Facebook spyrnti þó nýlega við fótum varðandi falsfréttir en þegar kórónuveirufaraldurinn braust út í Bandaríkjunum fjarlægði samfélagsmiðillinn fjölda færslna sem byggðar voru á röngum upplýsingum. Þá sagði Zuckerberg að á tímum heimsfaraldurs væri auðveldara að setja skýrar reglur.