Rafvæðing bílaflotans hér á landi kallar á nýjar lausnir í sölu á rafmagni, að mati umhverfis- og orkumálaráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.

Guðlaugur Þór nefnir fordæmi frá Finnlandi um að þar bjóði ýmsir aðilar í ferðaþjónustu rafmagn til sölu án þess að gefið sé út sérstakt orkusöluleyfi til þeirra.

„Þessi heimild er til staðar hér heima og í stuttu máli geta því allir selt rafmagn. Gott dæmi um þetta í framkvæmd væri þá að veitingahús eða aðili í bændagistingu gæti boðið upp á einfalda tengingu gegn föstu gjaldi fyrir sína viðskiptavini án þess að fjárfesta í dýrum búnaði,“ segir Guðlaugur Þór.

Tregða hefur verið hjá bílaleigum til að fjárfesta í miklum mæli í rafbílum. Það hamlar gegn umhverfisúrbótum ef stór fyrirtæki keyra á bensíni og dísilolíu. Sú skýring hefur verið gefin að aðgengi að rafmagni sé of stopult til að notendur treysti sér til að stíga skrefið til fulls á ferðalögum um landið.

Jóhannes Þór skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist jákvæður gagnvart hugmyndum ráðherra í þessum efnum.

„Mér líst mjög vel á þetta. Það myndi hjálpa innviðauppbyggingu hér á ferðalögum á rafmagnsbílum og tengiltvinnbílum ef hver sem er gæti selt rafmagn. Til dæmis veitingastaðir, gistiheimili, hótel, afþreyingaraðilar þar sem fólk stoppar á ferðum sínum,“ segir Jóhannes Þór.

Orkuskiptin kalla á nýja hugsun og nýjar lausnir, að mati Jóhannesar Þórs.

„Þetta myndi auðvelda uppbyggingu og gæti líka orðið aukatekjulind fyrir viðkomandi aðila, gæti orðið aðdráttarafl bæði fyrir fólk og fyrirtæki,“ segir Jóhannes Þór. Það verði svo að koma á daginn að hve miklu leyti svona skref myndi styðja við innviðauppbyggingu hér á landi.

Hugmyndir eru um app fyrir notendur, ef sú stund rennur upp að ökumenn rafbíla geti keypt sér rafmagn víðs vegar um landið.

Sjá nánar síðu fjögur í rafbílablaði sem fylgir Fréttablaðinu í dag.