„Ég er búinn að vera einn í héraði síðan 1985 og er starfandi allan veturinn og alltaf á bak­vakt,“ segir Sigur­geir Már Jens­son, læknir í Vík í Mýr­dal, en Mýr­dals­hreppur og fyrrum Austur-Eyja­fjalla­hreppur falla undir hans um­dæmi. Þó segist Sigur­geir sinna miklu stærra svæði.

„Ég þjónusta líka á Kirkju­bæjar­klaustri þegar ekki er læknir þar, en það eru meira en tíu ár síðan þar var síðast bú­settur fastur læknir,“ segir Sigur­geir. Það helgist af því að það hafi alltaf verið erfitt að manna það svæði.

„Það er sí­fellt erfiðara og erfiðara að fá menn til að setjast að á fá­mennum stöðum. Það þykir ekki fjöl­skyldu­vænt að vera eini læknirinn í héraði,“ segir Sigur­geir.

Að­spurður segir Sigur­geir það hafa vanist með tímanum að vera á vakt allan sólar­hringinn í fleiri ár. „Ég finn ekkert fyrir því núna, þetta er bara partur af „program­met“. Ef það væri full­kominn heimur myndi maður kannski ekki taka nema eina til tvær nætur­helgar­vaktir á mánuði. En lífið er bara ekkert þannig. Þetta er bara vinnan og staðan og það er bara einn læknir og hann þarf að sinna þessu,“ segir Sigur­geir.

„Það er sí­fellt erfiðara og erfiðara að fá menn til að setjast að á fá­mennum stöðum. Það þykir ekki fjöl­skyldu­vænt að vera eini læknirinn í héraði“

Að sögn Sigur­geirs hefur engin um­ræða verið um að fjölga læknum á svæðinu, en hann telur lækna­skort og mann­eklu innan heil­brigðis­kerfisins marg­þætt vanda­mál sem erfitt sé að festa fingur á.

„Mögu­lega neyðast menn til að fjölga læknum miðað við stöðuna, en það kostar mikla skipu­lagningu og fjár­magn. Ég sé ekki að læknum hafi fjölgað á lands­byggðinni í rúm tíu ár, að minnsta kosti ekki hér í héraði. Þetta er enn eins og þegar þetta var sett á stofn um miðja síðustu öld eða fyrr,“ segir Sigur­geir.

Eftir rúm­lega þrjá­tíu og sjö ár í starfi hyggst Sigur­geir fara á eftir­laun á næsta ári. Þó sé enn ó­víst hver taki við af honum.

„Það er örugg­lega farið að styttast í þetta hjá mér og kominn hálf­leikur, en ég hef ekki rætt við for­stjórann um hve­nær ná­kvæm­lega ég ætla að hætta eða hver tekur við. Ég get verið eitt­hvað lengur, í mesta lagi eitt ár,“ segir Sigur­geir, og bætir við að nokkur dæmi séu um að eldri læknar hafi unnið á­fram og þá sem verk­takar.

„Það er þá til að halda hlutunum gangandi vegna þess að það vantar ein­hvern til að taka við af þeim,“ segir Sigur­geir.