„Ég er búinn að vera einn í héraði síðan 1985 og er starfandi allan veturinn og alltaf á bakvakt,“ segir Sigurgeir Már Jensson, læknir í Vík í Mýrdal, en Mýrdalshreppur og fyrrum Austur-Eyjafjallahreppur falla undir hans umdæmi. Þó segist Sigurgeir sinna miklu stærra svæði.
„Ég þjónusta líka á Kirkjubæjarklaustri þegar ekki er læknir þar, en það eru meira en tíu ár síðan þar var síðast búsettur fastur læknir,“ segir Sigurgeir. Það helgist af því að það hafi alltaf verið erfitt að manna það svæði.
„Það er sífellt erfiðara og erfiðara að fá menn til að setjast að á fámennum stöðum. Það þykir ekki fjölskylduvænt að vera eini læknirinn í héraði,“ segir Sigurgeir.
Aðspurður segir Sigurgeir það hafa vanist með tímanum að vera á vakt allan sólarhringinn í fleiri ár. „Ég finn ekkert fyrir því núna, þetta er bara partur af „programmet“. Ef það væri fullkominn heimur myndi maður kannski ekki taka nema eina til tvær næturhelgarvaktir á mánuði. En lífið er bara ekkert þannig. Þetta er bara vinnan og staðan og það er bara einn læknir og hann þarf að sinna þessu,“ segir Sigurgeir.
„Það er sífellt erfiðara og erfiðara að fá menn til að setjast að á fámennum stöðum. Það þykir ekki fjölskylduvænt að vera eini læknirinn í héraði“
Að sögn Sigurgeirs hefur engin umræða verið um að fjölga læknum á svæðinu, en hann telur læknaskort og manneklu innan heilbrigðiskerfisins margþætt vandamál sem erfitt sé að festa fingur á.
„Mögulega neyðast menn til að fjölga læknum miðað við stöðuna, en það kostar mikla skipulagningu og fjármagn. Ég sé ekki að læknum hafi fjölgað á landsbyggðinni í rúm tíu ár, að minnsta kosti ekki hér í héraði. Þetta er enn eins og þegar þetta var sett á stofn um miðja síðustu öld eða fyrr,“ segir Sigurgeir.
Eftir rúmlega þrjátíu og sjö ár í starfi hyggst Sigurgeir fara á eftirlaun á næsta ári. Þó sé enn óvíst hver taki við af honum.
„Það er örugglega farið að styttast í þetta hjá mér og kominn hálfleikur, en ég hef ekki rætt við forstjórann um hvenær nákvæmlega ég ætla að hætta eða hver tekur við. Ég get verið eitthvað lengur, í mesta lagi eitt ár,“ segir Sigurgeir, og bætir við að nokkur dæmi séu um að eldri læknar hafi unnið áfram og þá sem verktakar.
„Það er þá til að halda hlutunum gangandi vegna þess að það vantar einhvern til að taka við af þeim,“ segir Sigurgeir.