„Það sem gerðist við þennan kastala sem fátið er í kringum. Það er fólk sem er að labba á bak við kastalann og einhver hefur sparkað í snúruna og þá losnar hún frá og þá lekur úr kastalanum,“ segir Jón Andri Helgason, framkvæmdarstjóri Skátalands, um atvikið sem átti sér stað í dag þegar loft tæmdist úr hoppukastala á vegum Skátalands í Hljómskálagarðinum.

Engum varð meint af atvikinu en margir foreldrar urðu skelkaðir þegar kastalar byrjuðu að missa loft.

„Fátið er þegar foreldrarnir vaða inn. Það var í rauninni mesta hættan“ segir Jón Andri og bætir við:

„Sem er ósköp eðlilegt þar sem fólk er bara stressað útaf þessu sem gerðist á Akureyri. Þetta er eðlileg hugsun og viðbrögð hjá foreldrunum en það er í rauninni það sem skapar hættuna.“

Jón Andri segir að það hafi komið nokkrum sinnum fyrir að rafmagn hafi slegið út fyrri part dagsins.

„Það var svo bara lagað. Það tekur tíma að stilla þetta til,“ segir Jón Andri

Jón Andri segir að viðbrögð þeirra sem sáu um kastalana hafi þó verið rétt.

„Það sem krakkarnir okkar gera er að kalla þetta út og athuga hvort einhver sambandssnúra hafi losnað. Það kemur alveg fyrir að einhverjir taka þetta úr sambandi. Það gerðist einu sinni í dag að einhver ákvað að taka þetta bara úr sambandi,“ segir Jón en telur líklegast að um börn hafi verið að ræða.

Jón segir að kastalar eins og þessi séu lengi að tæmast af lofti

„En þegar það gerist, fer starfsmaðurinn og kalla þetta út og labbar hringinn og athuga hvort einhver snúra hafi dottið úr sambandi og þá er kastalinn fljótur að taka við sér.“