Ingi Bekk vöru­hönnuður og þrí­víddar­prentari segir að það sé aug­ljóst að það hafi mikið verið átt við þrí­víddar­prentarann sem að var til sýnis á blaða­manna­fundi lög­reglunnar í gær.

Í síðustu viku og frá því að fyrst var greint frá rannsókn lögreglunnar hefur lög­reglan lagt hald á hundruð skot­vopna, ýmis gögn og þrí­víddar­prentara sem lík­lega var notaður til að prenta í­hluti til að breyta þeim skot­vopnum sem lagt var hald á. Lög­reglan greindi frá því á fundinum að ríkis­lög­reglu­stjóri hafi sagt sig frá rann­sókna lög­reglunnar á meintri skipu­lagningu tveggja manna sem eru í haldi á hryðju­verkum hér landi.

„Það er búið að breyta prentaranum tölu­vert og það er aug­ljóst að það var ein­hver með mikla þekkingu á þrí­víddar­prentun,“ segir Ingi.

Á myndunum hér að neðan má sjá prentarann eins og hann er þegar hann kemur úr kassanum, til vinstri, og svo prentarann sem lög­reglan lagði hald á, til hægri. Þeir eru nokkuð ó­líkir.

Prentarinn eins og hann kemur úr kassanum til vinstri og sá haldlagði til hægri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Auka kælingu til að prenta hraðar

Sem dæmi um það sem hefur verið breytt er skær­grænt stykki á prent­hausnum, neðar­lega

„Öllum þessum haus er búið að breyta tölu­vert til þess að bæta kælingu og annað sem að hinn al­menni notandi, sem hefur verið að gera þetta stutt, er ekki endi­lega að spá í,“ segir Ingi og að með aukinni kælingu sé hægt að ná meiri prent­hraða.

Þá eru neðar­lega á prentaranum pappírs­klemmur sem halda gleri á plötunni og segir Ingi að það sé al­gengt að þeir sem noti svona prentara mikið noti slíkar klemmur og að það geti gefið til kynna að prentarinn hafi verið mikið notaður.

„Vinstra megin er svo kapall sem á ekki að vera þarna,“ segir Ingi og að kapallinn bendi til þess að búið sé að breyta raf­magninu og að hann hafi lík­lega verið notaður til að fæða upp­færðu kælinguna á prentaranum.

„Þú gerir þetta ekkert án þess að vita upp á hár hvað þú gerir.“

Spólan ofan á er svo efnis­spólan og segir Ingi að hún hafi verið keypt er­lendis. „Þetta til­tekna efni er ekki mjög sveigjan­legt eða högg­þolið og mér finnst ó­lík­legt að það hafi verið notað í „aktívan“ hlut á byssunni. Eitt­hvað sem er á mikilli hreyfingu eða þarf að þola mikið. Það er lík­legra að þetta hafi verið notað í eitt­hvað annað,“ segir Ingi.

Hvað varðar skot­vopnin sem voru til sýnis á fundinum í gær segir Ingi að maga­sínin úr byssunum séu ekki prentuð en að hylkin utan um þau gæti verið það, en auk þess sé byssa fyrir miðju þar sem að búið er að prenta ein­hvers konar hlut á hana til að breyta henni.

Lífleg umræða um þrívíddarprentun

Ingi segir að um­ræða um þrí­víddar­prentun hafi verið líf­leg síðustu daga og að það hafi verið gott að fá það stað­fest, það sem þeim sem vinna við þetta grunaði, að mennirnir voru að prenta í­hluti til að breyta byssunum en ekki sjálf skot­vopnin með prenturunum. Enda sé það ekki hægt.

„Um­ræðan var ein­hvern veginn fyrst þannig að það væri hægt að ýta á play og þá prentaðist út byssa sem væri hægt að skjóta úr,“ segir Ingi og að það geti ýtt undir hræðslu hjá fólki sem ekki sé á­stæða fyrir.

„Við viljum það alls ekki því 99 prósent af því sem er verið að prenta er já­kvætt og ekki til að skaða nokkurn.“

Hvar sækir maður þessa þekkingu?

„Ef þú kaupir þér svona prentara myndi það taka þig að lág­marki mánuð að ná ein­hverri lagni að prenta úr honum. Þú viðar að þér þessari þekkingu á netinu. Það er til mikið af síðum sem fjalla bara um þetta og um­ræðu­síður á Reddit,“ segir Ingi og að það sé yfir­leitt þannig á þessum um­ræðu­síðum að ef það vakni upp minnsti grunur um að menn séu að reyna að gera eitt­hvað sem ekki er í lagi er köttað á þá.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er fram­leiðslu­tæki og það er hægt að gera ýmis­legt en að sama skapi þarf á­setningurinn að vera gífur­legur til þess að fara að kaupa þér prentara, viða að þér þessari þekkingu og svo prenta eitt­hvað sem virkar.“

Hefði þér órað fyrir því að þetta væri í gangi upp í Mos­fells­bæ?

„Nei, það hafði enginn grunur vaknað um það, ekki þegar maður hugsar til baka. Þeir sem eru að prenta á Ís­landi eru yfir­leitt að prenta eitt­hvað fyrir heimilin, í ein­hverjum biss­ness eins og ég eða að prenta dreka fyrir börnin sín,“ segir Ingi og hlær.