Dagur einhleypra er í dag. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir daginn í grunninn neysludag og hvetur einhleypa til að kaupa frekar upplifanir en neysluvöru. Bæði fyrir eigin hamingju og umhverfið.

„Þessi dagur er ekki gerður af samtökum einhleypra eða einhverju slíku, í grunninn er þetta neysludagur,“ segir Gró Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. Dagur einhleypra eða Singles’ Day er í dag.

Dagurinn var „haldinn hátíðlegur“ í fyrsta sinn árið 2009 og er hann hugarfóstur stofnenda kínverska netverslunarrisans Alibaba, sem er meðal annars eigandi vefsíðunnar Aliexpress. Deginum er ætlað að vera einhleypu fólki mótvægi við Valentínusardaginn. Einhleypt fólk er hvatt til þess að kaupa eitthvað sem það þráir handa sér sjálfu og bjóða margar netverslanir upp á tilboð á þessum degi. Dagurinn er jafnframt stærsti netverslunardagur ársins á heimsvísu.

„Það er á einhvern hátt verið að plata einhleypt fólk til að kaupa sér hamingju og mýtuna um að það sé einmana eða þurfi að fylla upp í eitthvert tómarúm,“ segir Gró, en bendir á að fjöldi rannsókna sýni fram á hið andstæða.

„Rannsóknir sýna margar að einhleypir séu virkir í samfélaginu, duglegir að halda sambandi við vini og fjölskyldu og hreyfi sig meira, allt eru þetta þættir sem sagðir eru auka hamingju og gleði,“ segir Gró. „Svo eru einnig rannsóknir sem sýna fram á að það virki ekki vel að fylla upp í tómarúm með því að kaupa neysluvörur. Hamingjan sem kemur við það er skammvinnur vermir,“ bætir hún við.

Gró mælir með því að þau einhleypu fagni deginum með því að gera meira af því sem einhleypir geri nú þegar mikið af. „Eitthvað félagslegt, hreyfa sig og hafa gaman. Snúa þessari hátíð upp í eitthvað sem er fyrir þá einhleypu, en ekki fyrir einhverjar verslunarkeðjur,“ segir hún.

Aðspurð hvernig þau sem hyggist kaupa sér eitthvað á þessum degi eða nýta tilboðin til jólagjafa geti gert það á sem ábyrgastan hátt fyrir sig sjálf og umhverfið, segir Gró til dæmis hægt að kaupa notað. „Það má leigja föt eða kaupa notað á alls konar vefsíðum og í loppum.“

Einnig mælir Gró með að fólk nýti tilboðin frekar til að kaupa upplifun, það sé betra fyrir umhverfið og veiti frekar hamingju en neysluvörur. „Eins og nudd, ég hef oft sagt að það sé eins og loftslagsaðgerð,“ segir hún.

„Það er ekki hátt kolefnisspor af því að fara í nudd, þú styður við atvinnugrein sem er ekki með hátt kolefnisspor og peningurinn sem þú eyðir í nuddið fer ekki í neysluvöru á meðan,“ segir Gró.