Karlmaður á sjötugsaldri sem handtekinn var í gær vegna skotárásarinnar í Miðvangi 41 í gærmorgun er ekki talinn eiga sér sögu um neitt misjafnt samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Íbúi sem Fréttablaðið ræddi við segir atvikið í gær hafa komið algjörlega í opna skjöldu.

Íbúinn segist ekki hafa vitað til þess að umræddur einstaklingur ætti skotvopn eða hafi haft aðgang að slíku. Hann hafi eingöngu átt jákvæð samskipti við manninn.

Maðurinn var í morgun úrskurðaður í fjögurra vikna vistun á viðeigandi stofnun í Héraðsdómi Reykjaness.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning á áttunda tímanum í gærmorgun um að skotið hefði verið á bifreið fyrir aftan verslun Nettó í Miðvangi í Hafnarfirði.

Mikill viðbúnaður lögreglu og sérsveitarinnar var á svæðinu sem var allt afgirt en umsátur lögreglunnar stóð yfir í rúmar fjórar klukkustundir áður en maðurinn gaf sig sjálfviljugur fram um tuttugu mínútur yfir tólf í hádeginu í gær.

Mikið mildi þykir að ekki fór verr en maður og sex ára sonur hans voru í annarri bifreiðinni sem skotið var á.

Fréttablaðið/Garðar Örn Úlfarsson

Lögreglan og sérsveit sat fyrir manninum sem hafði komið sér fyrir í íbúð sinni í rúmar fjórar klukkustundir áður en hann kom sjálfviljugur út úr íbúð sinni.

Leikskóli er fyrir aftan fjölbýlishúsið og voru 17 börn og 21 starfsmaður mætt þegar skotárásin átti sér stað og var leikskólanum lokað. Þau börn og starfsmenn sem voru mætt var haldið inni í leikskólanum enda mátti enginn vera á ferð í hverfinu.

Lögreglan hafði afgirt stórt svæði í kringum Miðvang og lokað var fyrir alla umferð allt þar til maðurinn var handtekinn um hádegisbil í gær.