Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist ekki vera að láta undan þrýstingi frá aðilum ferðaþjónustunnar með því að draga úr takmörkunum á komu ferðmanna.

Fram kom í máli hans á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag að ákveðið hafi verið að hætta að skima ferðamenn frá Noregi, Dan­mörku, Finn­landi og Þýska­landi. Munu þeir sem koma frá þessum svæðum hvorki þurfa að fara í sýna­töku né sótt­kví við komu þeirra til landsins.

Síðasta föstudag var greint frá því að fjöldi komufarþega hafi í fyrsta skipti farið yfir 2000 manna skimunarhámarkið sem sett var af sóttvarnalækni. Þá var útlit fyrir að flugfélög þyrftu að aflýsa fjölda flugferða á næstu vikum til að halda farþegafjölda innan marka.

Einfaldari kosturinn

„Ef við erum að fara yfir getu okkar til að taka 2000 sýni, þá er um tvo kosti að ræða. Það er annað hvort að flýta þessari ákvörðun um eina til tvær vikur, sem er nú ekki stórt frávik, eða þá að grípa þá til einhverra mjög harðra aðgerða til að stöðva innkomu flugs sem hefði þýtt lagasetning og meiriháttar mál. Svo ef maður skoðar þessa tvo kosti þá finnst mér ekki vera nokkur vafi á því að það er einfaldara að taka fyrri kostinn og þann kost sem við gripum til,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundinum.

Hann hafði áður gefið út að til stæði að endurskoða fyrirkomulag landamæraskimunarinnar um næstu mánaðarmót.

„Í mínum huga er það ekki að láta undan einu eða neinu heldur bara verið að fara eftir þeim plönum og prinsippum sem við höfum verið að nota allan tímann.“

Óvíst með bótaskyldu ríkisins

Túristi greindi frá því í gær að sjálfstæður samræmingarstjóri Keflavíkurflugvallar, sem skipaður er af Samgöngustofu, hafi kallað eftir skýrari leiðbeiningum frá íslenskum yfirvöldum um það hvernig hann ætti að velja flugferðir til fella niður ef til þess kæmi.

Áður hafði Isavia sagt að það væri verkefni samræmingarstjórans að fækka flugferðunum en hann sagði sjálfur að ákvarðanir um slíkt þyrftu að koma frá Samgöngustofu.

Þar að auki hafa verið uppi spurningar um það hvort ríkið myndi bera ábyrgð á því tjóni sem flugfélög yrðu fyrir ef þeim væri gert að fella niður flugferðir vegna skimunargetunnar.