Þrír yfirmenn hjá lögreglunni á Suðurnesjum hafa verið í um mánaðarlöngu veikindaleyfi vegna samskiptaörðugleika innan embættisins. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins. Um er að ræða aðstoðarsaksóknara, mannauðsstjóra og yfirlögfræðing embættisins.
Tveir starfsmenn embættisins kvörtuðu til Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, vegna meints eineltis af hálfu Öldu Hrannar Jóhannsdóttur yfirlögfræðings og Helga Þ. Kristjánssonar mannauðsstjóra í byrjun júní. Fagráð ríkislögreglustjóra tók eineltiskvartanirnar fyrir 20. júní síðastliðinn og voru starfsmennirnir boðaðir á fund fagráðs í kjölfarið.
Samkvæmt heimildum fóru Alda Hrönn og Helgi í veikindaleyfi tveimur dögum eftir að kvartað var til fagráðs án þess að tilkynna lögreglustjóranum um það. Hann komst að því í sjálfvirkum svörum frá netföngum þeirra.
Trúnaðarlæknir óskaði eftir vottorðum frá Öldu Hrönn og Helga um miðjan júlí, sem þau skiluðu afturvirkt.
Fréttablaðið hefur verið í sambandi við fjölda fyrrverandi og núverandi starfsmanna hjá embættinu vegna samskiptaerfiðleika innan embættisins síðustu mánuði og sem náðu hámarki í byrjun sumars.
Að ósk dómsmálaráðuneytis var ráðgjafarfyrirtækið Attentus fengið til þess að taka út embættið og var skýrslu skilað til dómsmálaráðherra í júlí.
Fagráð ríkislögreglustjóra hefur hins vegar ekki fengið skýrsluna og á því strandar frekari meðferð fyrrgreindra eineltiskvartana hjá fagráðinu.
Þessu hafa starfsmennirnir sem kvörtuðu vegna eineltis mótmælt harðlega og óskað úrlausn sinna mála óháð heildarúttekt á embættinu.
Dómsmálaráðuneytið hefur ekki svarað fyrirspurnum Fréttablaðsins vegna málsins. Hvorki Alda Hrönn né Ólafur Helgi vildu tjá sig um málið þegar Fréttablaðið hafði samband.