Þrír yfirmenn hjá lög­reglunni á Suður­nesjum hafa verið í um mánaðar­löngu veikinda­leyfi vegna sam­skipta­örðug­leika innan em­bættisins. Þetta herma heimildir Frétta­blaðsins. Um er að ræða að­stoðar­sak­sóknara, mann­auðs­stjóra og yfir­lög­fræðing em­bættisins.

Tveir starfs­menn em­bættisins kvörtuðu til Ólafs Helga Kjartans­sonar, lög­reglu­stjóra á Suður­nesjum, vegna meints ein­eltis af hálfu Öldu Hrannar Jóhanns­dóttur yfir­lög­fræðings og Helga Þ. Kristjáns­sonar mann­auðs­stjóra í byrjun júní. Fagráð ríkis­lög­reglu­stjóra tók ein­eltis­kvartanirnar fyrir 20. júní síðast­liðinn og voru starfs­mennirnir boðaðir á fund fagráðs í kjöl­farið.

Sam­kvæmt heimildum fóru Alda Hrönn og Helgi í veikinda­leyfi tveimur dögum eftir að kvartað var til fagráðs án þess að til­kynna lög­reglu­stjóranum um það. Hann komst að því í sjálf­virkum svörum frá net­föngum þeirra.

Trúnaðar­læknir óskaði eftir vott­orðum frá Öldu Hrönn og Helga um miðjan júlí, sem þau skiluðu aftur­virkt.

Frétta­blaðið hefur verið í sam­bandi við fjölda fyrr­verandi og nú­verandi starfs­manna hjá em­bættinu vegna sam­skipta­erfið­leika innan em­bættisins síðustu mánuði og sem náðu há­marki í byrjun sumars.

Að ósk dóms­mála­ráðu­neytis var ráð­gjafar­fyrir­tækið Attentus fengið til þess að taka út em­bættið og var skýrslu skilað til dóms­mála­ráð­herra í júlí.

Fagráð ríkis­lög­reglu­stjóra hefur hins vegar ekki fengið skýrsluna og á því strandar frekari með­ferð fyrr­greindra ein­eltis­kvartana hjá fagráðinu.

Þessu hafa starfs­mennirnir sem kvörtuðu vegna ein­eltis mót­mælt harð­lega og óskað úr­lausn sinna mála óháð heildar­út­tekt á em­bættinu.

Dómsmálaráðuneytið hefur ekki svarað fyrirspurnum Fréttablaðsins vegna málsins. Hvorki Alda Hrönn né Ólafur Helgi vildu tjá sig um málið þegar Fréttablaðið hafði samband.