Fimm sjúklingar á Reykjalundi hafa greinst með COVID-19. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi en í fyrradag kom í ljós að tveir starfsmenn á sólarhringsdeild höfðu greinst með veiruna.

Á deildinni Miðgarði dvelja sextán sjúklingar sem Reykjalundur hefur tekið á móti til að létta á hjá Landspítala.

Umræddir sjúklingar sem hafa nú greinst jákvæðir verða af öryggisástæðum fluttir af Reykjalundi á COVID-deildir Landspítala síðar í kvöld. Sjúklingum og aðstandendum þeirra hefur verið kynnt staða mála.

Ekki liggur fyrir hvaðan smitið hefur borist inn á deildina. „Mikilvægt er á þessari stundu að einbeita sér að velferð þeirra sem eiga um sárt að binda vegna þessa, frekar en að benda á mögulega sökudólga,“ segir í tilkynningu frá Pétri Magnússyni, forstjóra Reykjalundar.

Segir hann nærgætni og hlýju hafa sjaldan átt meira við en nú. Þakkar hann starfsfólki sínu fyrir markviss og öguð vinnubrögð og sendir öllum þeim sem hafa sýkst góða strauma og batakveðjur.

„Við sjúklinga okkar og aðstandendur þeirra vil ég harma þau óþægindi sem þetta ástand og ráðstafanir því tengdu hafa í för með sér. Jafnframt vil ég senda öllum sjúklingum og starfsfólki Miðgarðs mínar bestu kveðjur enda bíða mjög erfiðir dagar, hvort sem fólk er í veikindum, sóttkví eða við vinnu,“ segir Pétur.