Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar er ekkert sérstaklega vongóð fyrir fund samninganefndar félagsins við Samtök atvinnulífsins síðar í dag. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA segir það gott á meðan þau enn tala saman.
Sólveig Anna hefur lýst því í viðtölum að það sé verið að svipta Eflingarfólk þeirra rétti til sjálfstæðra samninga og segir samningsvilja SA engan.
„Það er markviss og einbeitt tilraun í gangi til þess að svipta okkur sjálfstæðum samningsrétt og þvinga okkur til að taka samning sem hentar okkur ekki og við viljum ekki. Svo er enginn vilji til að eiga, það sem mætti kalla, raunverulegar samningaviðræður,“ segir Sólveig Anna í samtali við Fréttablaðið.
Hún segir að Efling hafi farið á vinnufund með SA á milli jóla og nýárs og að þau hafi farið mjög undirbúin á þann fund og fært rök fyrir því hvernig hópur Eflingarfólks er ólíkur til dæmis þeim sem eru í SGS og að þau hafi búist við því að SA myndi koma með kostnaðarmat sem hægt væri að skoða.
„Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins kom ekki með neitt á þann fund þannig það var hrein tímasóun,“ segir Sólveig Anna og að það eina sem þau hafi fengið frá SA er tilboð um að taka við sama kjarasamningi og hafi verið gerður við VR og SGS.

Spurð hvað þau eru að biðja um annað eða meira en er í þeim samningum segir Sólveig að þau séu að fara fram á hækkanir sem komi til móts við fjárhagslega stöðu Eflingarfólks og að kröfurnar séu byggðar á þeim „efnahagslega raunveruleika“ sem ríkir í dag.
„Við erum að fara fram á breytingar í launatöflu séu unnar þannig að þær henti Eflingarfélögum. Þetta er ekki flókið og ættu ekki að vera erfiðar samningaviðræður. Strax frá upphafi stigum við fram með einfaldar kröfur. Ef það hefði einhver samningsvilji verið til staðar þá værum við ekki á þessum stað,“ segir Sólveig.
Hún segir að í grunninn snúist þeirra kröfur um launatöfluna og hvar hækkunin kemur inn því fólk sem starfar hjá Eflingu sé ekki endilega í sömu stöðu og þau sem starfa innan félaga SGS. Starfsaldurinn sé ekki sá sami. Eins segir hún bónusgreiðslur til fiskvinnslufólks ekki eiga sérstaklega við þeirra hóp því fáir starfi í þeim iðnaði.
Spurð hvort hún hafi skilning á þeim sjónarmiðum sem SA hefur lagt fram um að þau hafi gert samning við aðra og að með því að gera aðra samninga við þau væru verið að ganga gegn þeim segir Sólveig að hún hafi engan skilning á því.
„Það er algerlega fráleit afstaða. Samtökum atvinnulífsins ber skylda til þess að gera sjálfstæða kjarasamninga við Eflingu og eins og öll vita þá hefur hvert félag sjálfstæðan samningsrétt og það er mjög mikilvægt að sá réttur sé virtur. Við erum svo ekkert að tala um hvert annað félag, við erum að tala um langstærsta félag verka- og láglaunafólks, vinnuaflsins á höfuðborgarsvæðinu og það að SA neiti að eiga í eðlilegum samningaviðræðum við samninganefnd Eflingar er til háborinnar skammar,“ segir Sólveig.
Hafa þegar fallist á skammtímasamning
Hún segir að Efling hafi þegar fallist á að gerður verði skammtímasamningur og að hagvaxtarauki fari inn í launalið eins og hefur verið samið um í öðrum samningum.
„Við höfum sýnt ríkulegan samningsvilja en að sjálfsögðu er hollusta okkar við félagsfólk Eflingar og okkur ber skylda til þess að vinna ítarlega og hörðum höndum að því að fá samning sem hentar félagsfólki Eflingar. Ef við gerum það ekki erum við ekki starfi okkar vaxin og ættum að finna okkur eitthvað annað að gera,“ segir Sólveig.
Hún segir að það væri fráleitt að nokkur formaður í samningaviðræðum útiloki verkfall og að staðan eins og hún sé núna sé aðeins vegna þvermóðsku SA.
„Þau hafa teiknað upp þessa mynd sem nú opinberast og við munum gera það sem við þurfum að gera til að sinna okkur skyldu við félagsfólk Eflingar og landa samningi sem dugar fyrir okkur.“
Ekki hrædd við hótanir
Spurð hvort hún sé hrædd að missa afturvirkni samnings fari þau í aðgerðir segist hún ekki hræðast það. „Frá fyrsta degi er öllum tólum beitt til þess að búa til ástand þannig að við tökum því sem er kastað í okkur. Það að hóta því að það verði ekki afturvirkni er partur af því. Að ógna okkur og draga upp einhverja mynd,“ segir Sólveig og að þau muni ekki samþykkja það.
Með því að viðhafa þessi vinnubrögð þá gáfu menn frá sér í raun sterka samningsstöðu
Hún segir þann hraða sem settur var á samningaviðræður SGS og VR í raun óskiljanlegan og að það hafi ekki fengist nein skýring frá ríkissáttasemjara af hverju það var.
„Með því að viðhafa þessi vinnubrögð þá gáfu menn frá sér í raun sterka samningsstöðu. Þær efnahagsaðstæður sem eru uppi á Íslandi í dag eru þær að hér er verðbólga sem étur upp kaupmátt launafólks og að sama skapi hefur verið gífurlegur hagvöxtur og mikill gróði auk þess sem það er skortur á vinnuafli. Hver einstaklingur sem skoðar þessa sviðsmynd með heiðarlegum hætti sér að samningsstaða launafólks er góð til að ná góðum samningi,“ segir Sólveig og að samninganefnd Eflingar hafi þetta allt til hliðsjónar.
„Við munum aldrei kyngja því í þessu ástandi að afrakstur okkur vinnu, sem skapar þennan hagvöxt renni meira og minna öll í vasa atvinnurekenda. Það er óásættanlegt,“ segir Sólveig Annað lokum.

Kemur ekkert á óvart þegar kemur að Eflingu
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hafði lítil viðbrögð við þessum orðum Sólveigar Önnu.
„Þetta er hefðbundin kjaradeila. Samtök atvinnulífsins gera um 130 til 140 kjarasamninga í hverri lotu og ég sé engan merkjanlegan mun á þessum samningaviðræðum og öðrum kjarasamningsviðræðum sem við höfum átt. Samtök atvinnulífsins hafa samið við þrjú risastór samtök og það eru stefnumarkandi kjarasamningar,“ segir Halldór og að samningarnir taki til um 80 þúsund, það hafi verið kosið um þá og þeir samþykkir með yfirgnæfandi meirihluta.
„Þetta er sú líka sem er mörkuð fyrir kjarasamninga á opinberum og almennum vinnumarkaði og ég geri ráð fyrir því að Sólveig sé að vísa til þess að hún vilji einhverja aðra lausn en þarna er boðið upp á. Hann segir að öllum viðsemjendum sé sýndur sveigjanleiki án þess þó að gengið sé á þær línur sem hafa verið lagðar í stefnumarkandi kjarasamningum.
„Það er stefna Samtaka atvinnulífsins og hefur verið það svo áratugum skiptir. Það er engin breyting á því,“ segir hann.
Hvað varðar fundinn í dag segir Halldór að hann leggi raunsætt mat á viðræðurnar hverju sinni.
Spurður um mögulegt verkfall gangi ekki vel í dag segir hann ekkert koma sér á óvart þegar kemur að Eflingu en að það sé þó góðs viti á meðan þau tala enn saman.