Sól­veig Anna Jóns­dóttir for­maður Eflingar er ekkert sér­stak­lega von­góð fyrir fund samninga­nefndar fé­lagsins við Sam­tök at­vinnu­lífsins síðar í dag. Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son fram­kvæmda­stjóri SA segir það gott á meðan þau enn tala saman.

Sól­veig Anna hefur lýst því í við­tölum að það sé verið að svipta Eflingar­fólk þeirra rétti til sjálf­stæðra samninga og segir samnings­vilja SA engan.

„Það er mark­viss og ein­beitt til­raun í gangi til þess að svipta okkur sjálf­stæðum samnings­rétt og þvinga okkur til að taka samning sem hentar okkur ekki og við viljum ekki. Svo er enginn vilji til að eiga, það sem mætti kalla, raun­veru­legar samninga­við­ræður,“ segir Sól­veig Anna í samtali við Fréttablaðið.

Hún segir að Efling hafi farið á vinnu­fund með SA á milli jóla og ný­árs og að þau hafi farið mjög undir­búin á þann fund og fært rök fyrir því hvernig hópur Eflingar­fólks er ó­líkur til dæmis þeim sem eru í SGS og að þau hafi búist við því að SA myndi koma með kostnaðar­mat sem hægt væri að skoða.

„Full­trúi Sam­taka at­vinnu­lífsins kom ekki með neitt á þann fund þannig það var hrein tíma­sóun,“ segir Sól­veig Anna og að það eina sem þau hafi fengið frá SA er til­boð um að taka við sama kjara­samningi og hafi verið gerður við VR og SGS.

Sólveig Anna segir samninganefnd Eflingar hafa mikinn samningsvilja. Hér er nefndin á fundi í dag.
Fréttablaðið/Ernir

Spurð hvað þau eru að biðja um annað eða meira en er í þeim samningum segir Sól­veig að þau séu að fara fram á hækkanir sem komi til móts við fjár­hags­lega stöðu Eflingar­fólks og að kröfurnar séu byggðar á þeim „efna­hags­lega raun­veru­leika“ sem ríkir í dag.

„Við erum að fara fram á breytingar í launa­töflu séu unnar þannig að þær henti Eflingar­fé­lögum. Þetta er ekki flókið og ættu ekki að vera erfiðar samninga­við­ræður. Strax frá upp­hafi stigum við fram með ein­faldar kröfur. Ef það hefði ein­hver samnings­vilji verið til staðar þá værum við ekki á þessum stað,“ segir Sól­veig.

Hún segir að í grunninn snúist þeirra kröfur um launa­töfluna og hvar hækkunin kemur inn því fólk sem starfar hjá Eflingu sé ekki endi­lega í sömu stöðu og þau sem starfa innan fé­laga SGS. Starfs­aldurinn sé ekki sá sami. Eins segir hún bónus­greiðslur til fisk­vinnslu­fólks ekki eiga sér­stak­lega við þeirra hóp því fáir starfi í þeim iðnaði.

Spurð hvort hún hafi skilning á þeim sjónar­miðum sem SA hefur lagt fram um að þau hafi gert samning við aðra og að með því að gera aðra samninga við þau væru verið að ganga gegn þeim segir Sól­veig að hún hafi engan skilning á því.

„Það er al­ger­lega frá­leit af­staða. Sam­tökum at­vinnu­lífsins ber skylda til þess að gera sjálf­stæða kjara­samninga við Eflingu og eins og öll vita þá hefur hvert fé­lag sjálf­stæðan samnings­rétt og það er mjög mikil­vægt að sá réttur sé virtur. Við erum svo ekkert að tala um hvert annað fé­lag, við erum að tala um lang­stærsta fé­lag verka- og lág­launa­fólks, vinnu­aflsins á höfuð­borgar­svæðinu og það að SA neiti að eiga í eðli­legum samninga­við­ræðum við samninga­nefnd Eflingar er til há­borinnar skammar,“ segir Sól­veig.

Hafa þegar fallist á skammtímasamning

Hún segir að Efling hafi þegar fallist á að gerður verði skamm­tíma­samningur og að hag­vaxtar­auki fari inn í launa­lið eins og hefur verið samið um í öðrum samningum.

„Við höfum sýnt ríku­legan samnings­vilja en að sjálf­sögðu er hollusta okkar við fé­lags­fólk Eflingar og okkur ber skylda til þess að vinna ítar­lega og hörðum höndum að því að fá samning sem hentar fé­lags­fólki Eflingar. Ef við gerum það ekki erum við ekki starfi okkar vaxin og ættum að finna okkur eitt­hvað annað að gera,“ segir Sól­veig.

Hún segir að það væri frá­leitt að nokkur for­maður í samninga­við­ræðum úti­loki verk­fall og að staðan eins og hún sé núna sé að­eins vegna þver­móðsku SA.

„Þau hafa teiknað upp þessa mynd sem nú opin­berast og við munum gera það sem við þurfum að gera til að sinna okkur skyldu við fé­lags­fólk Eflingar og landa samningi sem dugar fyrir okkur.“

Ekki hrædd við hótanir

Spurð hvort hún sé hrædd að missa aftur­virkni samnings fari þau í að­gerðir segist hún ekki hræðast það. „Frá fyrsta degi er öllum tólum beitt til þess að búa til á­stand þannig að við tökum því sem er kastað í okkur. Það að hóta því að það verði ekki aftur­virkni er partur af því. Að ógna okkur og draga upp ein­hverja mynd,“ segir Sól­veig og að þau muni ekki sam­þykkja það.

Með því að við­hafa þessi vinnu­brögð þá gáfu menn frá sér í raun sterka samnings­stöðu

Hún segir þann hraða sem settur var á samninga­við­ræður SGS og VR í raun ó­skiljan­legan og að það hafi ekki fengist nein skýring frá ríkis­sátta­semjara af hverju það var.

„Með því að við­hafa þessi vinnu­brögð þá gáfu menn frá sér í raun sterka samnings­stöðu. Þær efna­hags­að­stæður sem eru uppi á Ís­landi í dag eru þær að hér er verð­bólga sem étur upp kaup­mátt launa­fólks og að sama skapi hefur verið gífur­legur hag­vöxtur og mikill gróði auk þess sem það er skortur á vinnu­afli. Hver ein­stak­lingur sem skoðar þessa sviðs­mynd með heiðar­legum hætti sér að samnings­staða launa­fólks er góð til að ná góðum samningi,“ segir Sól­veig og að samninga­nefnd Eflingar hafi þetta allt til hlið­sjónar.

„Við munum aldrei kyngja því í þessu á­standi að af­rakstur okkur vinnu, sem skapar þennan hag­vöxt renni meira og minna öll í vasa at­vinnu­rek­enda. Það er ó­á­sættan­legt,“ segir Sól­veig Annað lokum.

Halldór Benjamín segir línuna hafa verið lagða í samningum við VR og SGS. Það séu stefnumarkandi kjarasamningar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Kemur ekkert á óvart þegar kemur að Eflingu

Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífsins hafði lítil við­brögð við þessum orðum Sól­veigar Önnu.

„Þetta er hefð­bundin kjara­deila. Sam­tök at­vinnu­lífsins gera um 130 til 140 kjara­samninga í hverri lotu og ég sé engan merkjan­legan mun á þessum samninga­við­ræðum og öðrum kjara­samnings­við­ræðum sem við höfum átt. Sam­tök at­vinnu­lífsins hafa samið við þrjú risa­stór sam­tök og það eru stefnu­markandi kjara­samningar,“ segir Hall­dór og að samningarnir taki til um 80 þúsund, það hafi verið kosið um þá og þeir sam­þykkir með yfir­gnæfandi meiri­hluta.

„Þetta er sú líka sem er mörkuð fyrir kjara­samninga á opin­berum og al­mennum vinnu­markaði og ég geri ráð fyrir því að Sól­veig sé að vísa til þess að hún vilji ein­hverja aðra lausn en þarna er boðið upp á. Hann segir að öllum við­semj­endum sé sýndur sveigjan­leiki án þess þó að gengið sé á þær línur sem hafa verið lagðar í stefnu­markandi kjara­samningum.

„Það er stefna Sam­taka at­vinnu­lífsins og hefur verið það svo ára­tugum skiptir. Það er engin breyting á því,“ segir hann.

Hvað varðar fundinn í dag segir Hall­dór að hann leggi raun­sætt mat á við­ræðurnar hverju sinni.

Spurður um mögu­legt verk­fall gangi ekki vel í dag segir hann ekkert koma sér á ó­vart þegar kemur að Eflingu en að það sé þó góðs viti á meðan þau tala enn saman.