Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins og verðandi borgarstjóri kveðst vera ánægður með samstarfssáttmálann og meirihlutasamstarfið, en í dag var kynntur málefnasamningur nýs borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík.
Meðal þeirra verkefna sem eru fyrst á dagskrá nýs meirihluta er húsnæðisátak og úthlutun lóða í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi, á Hlíðarenda, í Gufunesi og á Ártúnshöfða. Þá á að efna til samkeppni um skipulag Keldnalands og Keldnaholts og flýta þannig uppbyggingu svæðanna með tilkomu borgarlínu. .
Fingraför Framsóknarflokksins greinileg í samstarfinu
„Þetta leggst vel í mig. Ég er ánægður með samstarfssáttmálann og hann svarar öllum kröfum Framsóknar um breytingarnar sem við töluðum um í kosningabaráttunni,“ segir Einar, en hann mun sitja í borgarráði næstu átján mánuði.
„Þar verð ég formaður og fer fyrir húsnæðisátakinu sem að felur í sér að kortleggja hvernig við getum hraða öllum framkvæmdum eins og kostur er og úthlutað sem hraðast á nýjum svæðum í borginni, eins og í Úlfarsárdal, Kjalarnesi og fleiri stöðum,“ segir Einar.
Hann segir samninginn vera í takt við það sem Framsóknarflokkurinn hafi talað um fyrir kosningar. „Þarna eru líka önnur mál eins og málefni barna og barnafjölskyldna sem við ætlum að setja í öndvegi. Frítt í strætó og frítt í sund og hækkun frístundarstyrks. Þetta eru allt mál sem Framsókn hafði á sinni stefnuskrá, þannig fingraför flokksins eru mjög greinileg í þessu meirihlutasamstarfi,“ segir Einar.
Segist ekki hugsa út í borgarstjórastólinn
Eins og var greint frá fyrr í dag mun Einar og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar skipta með sér borgarstjórastólnum á næsta kjörtímabili.
„Okkur þótti þetta skynsamleg skipting embætta og það er mikilvægt að geta hafið húsnæðisátakið í borgarráði sem er öflugt ráð. Ég nálgast þetta starf að auðmýkt og metnaði. Ég ætla reyndar að fara í fæðingarorlof á þessu tímabili og svo tek ég við borgastjórastólnum í ársbyrjun 2024,“ segir Einar.
Aðspurður hvað verði hans fyrsta verk þegar hann verður borgarstjóri, segir Einar að hann hafi ekki haft tíma til að hugsa um það.
„Ég er bara að hugsa um fyrsta opinbera vinnudaginn sem hefst á morgun. Ég ætla byrja að vinna að húsnæðismálunum og í þeim málum sem eru mikilvæg fyrir borgarbúa. Varðandi borgarstjórastólinn, ég bara hef ekki hugsað um það. Þú mátt spyrja mig aftur eftir átján mánuði,“ segir Einar og hlær.