Einar Þorsteinsson, fréttamaður, ætlar að gefa kost á sér í fyrsta sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík. Það tilkynnti hann í Vikunni með Gísla Marteini í kvöld á RÚV.

„Maður kemur löðrandi sveittur undan þessum feldi,“ sagði Einar í Vikunni í kvöld þegar hann var spurður hvort hann ætlaði í framboð í Reykjavík fyrir kosningarnar í vor. 

Hann sagði þar að hann hefði verið búinn að ráða sig í nýtt starf og ætlað að taka sér frí í janúar en að það hafi margir komið að máli við hann um framboð og að hann hafi ákveðið að slá til. Einar sagðist ekki hafa verið tengdur einum flokki en var þó spurður út í tengsl sín við Sjálfstæðisflokkinn en hann sagðist hafa margar skrítnar skoðanir þegar hann var tvítugur.

„Þegar ég fór að máta mig við stjórnmálaflokka var það augljóst mál að Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem ég gæti verið í,“ sagði hann svo.

Hægt er að horfa á þáttinn hér.