„Það er mjög margt sem bendir til þess að þetta séu leifarnar af vetrinum,“ segir Einar Svein­björns­son veður­fræðingur í sam­tali við Frétta­blaðið. Lands­menn eru orðnir lang­eygðir eftir vorinu enda veturinn búinn að vera langur. Út­lit er fyrir að ósk megin­þorra lands­manna rætist von bráðar.

„Spáin er hag­stæð fyrir páskana,“ segir Einar sem bendir þó á að morgun­dagurinn og skír­dagur verði heldur kaldir víða um land. „Síðan koma veiga­lítil skil úr suðri með mildara loft. Það er eins og mesti sperringurinn sé þá úr þessu kalda lofti – í bili að minnsta kosti.“

Vetrarmánuðirnir fjórir

Einar segir að harður vetur hafi verið á landinu að undan­förnu og minnti hann ræki­lega á sig um liðna helgi. Loft­kuldinn að undan­förnu hafi minnt miklu frekar á vetur en vor.

„Auð­vitað er fólk orðið of­boðs­lega lang­þreytt á þessari vetrar­veðráttu og það er stundum talað um að vetrar­mánuðirnir séu fjórir hér á landi: desember, janúar, febrúar og mars. Nú erum við komin fram að 7. apríl og við sjáum enga breytingu, að öðru leyti en að sólin er farin að ylja að­eins þegar við stingum hausnum í átt að henni. En það sést ekki á hita­tölum.“

Að­spurður um veðrið eftir páska segir Einar að út­lit sé fyrir ein­dregnari sunnan- og suð­vestan­átt með mildara lofti. „Það er ekkert enn sem bendir til þess að það geri eitt­hvað hret. Við erum að horfa á þessa hægu ís­lensku vor­komu,“ segir Einar. Hann segir að hægari vindar séu einnig í kortunum og það eru ef­laust margir sem fagna því.

Rauðar hitatölur eins langt og spár ná

Ef lang­tíma­spá norsku veður­stofunnar er skoðuð sjást rauðar hita­tölur fyrir höfuð­borgar­svæðið svo langt sem spáin nær, eða til 16. apríl. Sam­kvæmt sömu lang­tíma­spá geta í­búar á Akur­eyri átt von á rauðum hita­tölum eftir páska­dag og alveg til 16. apríl hið minnsta.

Einar segir að enn sé of snemmt að segja til um sumar­veðrið, en svo­kallaðar veður­lags­spár sem eru til þriggja mánaða í senn hafa stundum gefið á­gæta vís­bendingu. Einar segir að næsta slíka spá sé væntan­leg um miðjan mánuðinn og gildir hún þá fyrir maí, júní og júlí. Hann segir að meira verði að marka spána sem kemur um miðjan maí­mánuð. Þá verði hægt að spá í spilin með meiri vissu.