„Mér finnst mikil­vægt að við fókusum á mál­efnin,“ sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, um yfirlýsingu sem hún gaf út fyrr í dag um vilja hennar til að hefja meirihlutaviðræður við Framsóknarflokkinn ásamt Samfylkingunni og Pírötum. Í færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag sagði hún að Viðreisn væri af heilum hug í bandalagi ásamt Samfylkingunni og Pírötum í meirihlutaviðræðum í borginni og að flokkurinn myndi ekki leita annað.

„Þetta eru stóru verk­efnin á næstu fjórum árum og við í Við­reisn erum í þessu banda­lagi að heilum hug vegna þess að við trúum því að niður­stöður kosninganna séu skýrar á mál­efnin,“ sagði Þórdís við Fréttablaðið. „Yfir sex­tíu prósent kjós­enda settu at­kvæði sitt á flokka sem voru alveg skýrir. Nokkrir flokkar voru mjög skýrir í alveg öfuga átt. Þeir eru ekki lengur inni í borgar­stjórn. Þeir flokkar sem voru ó­skýrir eru þá hinn hlutinn af þessu og það eru þá Flokkur fólksins og Sjálf­stæðis­flokkurinn.“

Kosning Framsóknar skýr krafa um breytingar

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir stóru tíðindin vera þau að með útspili Þórdísar Lóu sé Sjálfstæðisflokkurinn í reynd útilokaður úr meirihlutasamstarfi. „Sjálfstæðisflokknum hefur greinilega ekki tekist að fá Viðreisn og Flokk fólksins til viðræða eins og hann vildi. VG ætlar ekki að taka þátt og þá sýnist mér þetta vera eini mögulegi meirihlutinn. Ég ætla aðeins að melta þetta og ræða við mitt bakland um næstu skref.“

Einar vildi ekki gefa upp hvort honum litist vel á mögulegt samstarf við Viðreisn, Samfylkingu og Pírata. „Við höfum sagt frá byrjun að við erum tilbúin að vinna bæði til hægri og til vinstri og við teljum okkur fært að knýja fram breytingar fyrir borgarbúa á hvort veginn sem er. Hins vegar er valkostunum greinilega að fækka og það virðist ekki hægt að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokki núna þegar VG og Viðreisn eru búin að lýsa því yfir að þau ætli ekki að láta á það reyna. Þá ætla ég að fara með þessa stöðu og ræða við mitt bakland. Ég býst við að boða til fundar hjá okkur í Framsókn á morgun til að ræða stöðuna.“

Einar sagðist ekki munu lofa því að fara í neinar formlegar viðræður um meirihluta af þessu tagi án samráðs við flokk sinn. Jafnframt sagðist hann ekki munu leggja fram neina kröfu fyrir fram um borgarstjórastólinn ef til þessa samstarfs kæmi. „En það er klárt að borgarbúar kusu ekki Framsókn bara til að hafa óbreytt ástand. Það er skýr krafa um breytingar, og við förum með hana inn í þessar viðræður ef það verður að þeim.“