Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri Reykjavíkur í fjarveru Dags B. Eggertssonar, segir mikilvægt núna sem aldrei fyrr að standa vörð um þau grunngildi sem samfélög byggja á.

Í samúðarkveðju sem Einar sendi Marianne Borgen, borgarstjóra Oslóar, fyrir hönd Reykvíkinga vottar Einar sína dýpstu samúð vegna þeirra voveiflegu atburða sem áttu sér stað í Osló aðfaranótt laugardagsins 25. júní síðastliðinn.

Tveir létust og um tuttugu manns særðust í skotárás í miðborg Oslóar í gær, árásin hófst fyrir utan bar sem er vinsæll samkomustaður meðal hinsegin fólks.

„Við látum hvergi bugast í baráttunni gegn ótta og hatri og upphefjum kærleika og umburðarlyndi,“ segir Einar í kveðju sinni og bætir við að hjörtu Íslendinga og hugsanir séu sérstaklega hjá þeim sem nú syrgja ástvini, hinum særðu og hinsegin samfélaginu sem hefur orðið fyrir enn einni árásinni.

„Samhugur Reykvíkinga er með öllum íbúum Oslóar og þeim sem eiga um sárt að binda vegna þessara óskiljanlegu grimmdarverka,“ segir Einar að síðustu í kveðju sinni.