„Þessi spá er kannski frekar vís­bending um kafla­skiptingu en eitt­hvað eins­leitt veður­far,“ segir Einar Svein­björns­son veður­fræðingur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Einar, sem heldur úti vefnum Blika.is, birti í gær­kvöldi veður­spá fyrir júlí­mánuð hér á landi en spáin er byggð á reikni­líkani Banda­rísku al­ríkis­veður­stofunnar, NCEP. Það er jafnan allra veðra von á Ís­landi og ef spáin fyrir júlí­mánuð rætist munu skiptast á skin og skúrir í öllum lands­hlutum.

Spáin sem um ræðir miðast við fjórar vikur, tíma­bilið 29. júní til 26. júlí.

Heldur kaldur fyrri hluti

„Í þessari viku er hæg norðan­átt ríkjandi sem er í takt við aðrar spár,“ segir Einar en þetta þýðir að heldur svalt og þung­búið verður fyrir norðan en ekki mikil úr­koma. Að sama skapi verður þurrt og bjart með köflum syðra og sæmi­lega milt veður. „En ekkert meira en það,“ segir hann.

Vikuna 6. til 12. júlí má gera ráð fyrir há­lofta­dragi yfir landinu og í kringum það. „Að sumar­lagi þýðir það oftast nær skúra­veður og hiti verður ekki sér­stak­lega hár. Segir Einar að þá vikuna muni væntan­lega skiptast á skin og skúrir í flestum lands­hlutum. Rætist spáin þessa vikuna verður mark­vert kaldara en í meðal­lagi.

Bongóblíða fyrir norðan og austan?

„Svo er út­lit fyrir breytingar um og fyrir miðjan mánuðinn þar sem spáð er há­þrýsti­svæði yfir Bret­lands­eyjum. Reynslan sýnir okkur að það verður þá meira um sunnan- og suð­vestan­áttir,“ segir Einar sem á von að þá verði meiri raki í lofti á Suður- og Vestur­landi en gott sumar­veður norðan- og austan­lands. Þar verði sól­ríkt og hlýtt en suddi eða rigning suð­vestan­til.

Vikuna þar á eftir má gera á­fram ráð fyrir svipuðu veðri og því gæti farið svo að leiðin liggi norður eða austur hjá þeim sem vilja elta góða veðrið – að minnsta kosti um eða eftir miðjan júlí­mánuð.

Einar bendir á að veðrið hafi verið hag­stætt fyrir íbúa á suð­vestur­helmingi landsins undan­farna tíu daga eða svo þó vissu­lega hafi rignt einn og einn dag. Lík­lega megi gera á­fram ráð fyrir því og segir Einar að það muni koma góðir dagar inn á milli þar sem sólin lætur sjá sig Bendir hann á að þessi vika sé til­tölu­lega hag­stæð fyrir vestur­helming landsins.

Einar segir að lokum að spá Evrópsku reikni­mið­stöðvarinnar sem kom í gær­kvöldi sé í takt við spá banda­rísku veður­stofunnar. „Hún sýnir til dæmis há­þrýsting við Bret­lands­eyjar um miðjan mánuðinn.“

Hér má sjá færslu Einars á vef Blika.is.