Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, mun hitta Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata, í dag til að ræða úrslit kosninganna og um framhaldið.

Í kjölfarið mun Einar ræða við þá oddvita sem hann hefur enn ekki náð tali af en hann hefur nú þegar rætt við oddvita Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Flokk fólksins og Viðreisnar.

Þetta staðfestir Einar í samtali við Fréttablaðið en hann hitti Dag B. Eggertsson á fundi síðdegis í gær.

Óformlegt spjall

Að sögn Einars áttu þeir Dagur gott spjall í gær. „Eins og ég hef átt við aðra oddvita til að leggja mat á það hvernig landið liggur og ekkert mikið meira um það að segja í sjálfu sér.“

Aðspurður hvort þeir hafi komist að einhverju samkomulagi segir Einar þá ekki komna þangað. Fyrst þurfi að ræða almennt saman og leggja mat á stöðuna.

Einar segir Framsókn ekki útiloka neitt samstarf en að fyrst þurfi hann að heyra í oddvitum allra flokka. „Við þurfum að finna út hvar það er líklegast að geta knúið fram þær breytingar sem við töluðum um í kosningabaráttunni,“ segir Einar.

Aðspurður hvort þeir Dagur hafi rætt borgarstjóra embættið sín á milli í gær segist Einar ekki vilja fara nákvæmlega út í það sem fór fram á fundinum né hvað hann hafi rætt um við aðra oddvita.

Kæmi til greina að þú yrðir borgarstjóri í tvö ár og Dagur í tvö ár verði af samstarfi?

„Ég ætla ekkert að tjá mig um það,“ segir Einar.