Einar Þor­steins­son og Dagur B. Eggerts­son ætla að skipta með sér borgar­stjóra­stólnum næstu fjögur árin. Dagur mun sitja á­fram næstu á­tján mánuðina og svo tekur Einar við í byrjun árs 2024.

Einar verður formaður borgarráðs þangað til. Og þegar sá tími kemur að hann taki við borgarstjórastólnum af Degi, mun Dagur taka við af honum sem formaður borgarráðs.

Þá mun Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, verða forseti borgarstjórnar og Dóra Björt Guðjónsdóttir fara fyrir skipulagsráði.

Þetta er meðal þess sem kom fram á blaða­manna­fundi odd­vita Fram­sóknar, Sam­fylkingar, Pírata og Við­reisnar við stöðvar­stjóra­húsið í Elliða­ár­dal í dag, þar sem meiri­hluta­við­ræður flokkana hafa staðið yfir undan­farna daga.

Rúmar þrjár vikur eru frá borgar­stjóra­kosningum þar sem meiri­hluti Sam­fylkingar, Vinstri grænna, Við­reisnar og Pírata féll. Fram­sókn vann kosninga­sigur og náði fjórum mönnum inn, en á síðasta kjör­tíma­bili hafði flokkurinn engan mann.

Þá liggja fyrir fyrstu breytingar í nýjum mál­efna­samningi flokkana:

 • Ráðast í hús­næðis­á­tak og út­hluta lóðum í Úlfarsár­dal, á Kjalar­nesi, á Hlíðar­enda, í Gufu­nesi og á Ár­túns­höfða
 • Efna til sam­keppni um skipu­lag Keldna­lands og Keldna­holts og flýta þannig upp­byggingu svæðanna með til­komu borgar­línu
 • Hefja gerð um­hverfis­mats vegna Sunda­brautar
 • Koma að gerð hús­næðis­sátt­mála ríkis og sveitar­fé­laga
 • Hækka frí­stundar­styrk upp í 75 þúsund krónur frá 1. janúar 2023
 • Ó­keypis í sund fyrir börn á grunn­skóla­aldri
 • Ó­keypis í strætó fyrir börn á grunn­skóla­aldri
 • Koma á nætur strætó
 • Gera til­raun með mið­næturopnun í einni sund­laug einu sinni í viku
 • Setja við­halds­á­tak í leik-, grunn og frí­stunda­hús­næði borgarinnar í for­gang og flýta verk­efnum eins og kostur er
 • Hefja átak í betri svefni barna og skoða allar breytingar á upp­hafi skóla­dags
 • Setja á fót skaða­minnkandi úr­ræði fyrir unga karl­menn
 • Stofna fram­kvæmda­nefnd um þjóðar­höll og að­stöðu fyrir börn og ung­linga í Laugar­dal í sam­vinnu við ríkið
 • Aug­lýsa eftir sam­starfs­aðilum til að þróa hug­myndir um mið­stöð jaðar­í­þrótta í Topp­stöðinni í Elliða­ár­dal
 • Efna til sam­keppni um Dans- og fim­leika­hús í Efra-Breið­holti
 • Ná sam­stöðu um að stofna á­fanga­staða- og markaðs­stofu á­samt sveitar­fé­lögum á höfuð­borgar­svæðinu til að efla ferða­þjónustu á svæðinu
 • Hefja fram­kvæmdir á Hlemm­torgi
 • Efna til sam­tals við alla borgar­full­trúa um bættan starfs­anda og fjöl­skyldu­væna borgar­stjórn

Fréttin verður uppfærð.