Hildur Björns­dóttir, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í borginni, sagði í kvöld í kapp­ræðum Ríkis­út­varpsins Dag B. Eggerts­son, borgar­stjóra og Einar Þor­steins­son, odd­vita Fram­sóknar­flokksins hafa „daðrað við hvorn annan“ upp á meiri­hluta­sam­starf eftir kosningar.

Hildur bar upp spurningu fyrir Dag í hluta kapp­ræðanna þar sem odd­vitum gafst færi á að spyrja hver aðra einnar spurningar. Spurði Hildur Dag út í leik­skóla­málin og hvort for­eldrar þurfi að horfa á­fram fram á við­varandi úr­ræða­leysi.

Framsókn mælist nú með fjóra borgarfulltrúa og er framtíð meirihlutans óljós, ýmist heldur hann á einum borgarfulltrúa eða rétt fellur í skoðanakönnunum degi fyrir kosningar.

„Ég ætla að fá að spyrja um leik­skóla­málin því þau skipta mig svo miklu máli,“ sagði Hildur. „Ég ætla að beina sjónum mínum að borgar­stjóra,“ bætti hún svo við.

„Nú eru borgar­stjóri og odd­viti Fram­sóknar svo­lítið búnir að vera að daðra hver við annan um meiri­hluta­sam­starf og borgar­stjóri segir leik­skóla­málin vera leyst og odd­viti Fram­sóknar segist vera búinn að gefast upp og er ekki best að gera ekkert?“

Skaut þá Einar inn í: „Er það? Ég á nýtt barn, mánaðar­gamalt. Nei ég er bara raun­sær, það þarf bara fjöl­breyttar lausnir og það er engin upp­gjöf, það ermetnaður.“

Hélt Hildur á­fram: „Ég spyr borgar­stjóra. Ef þú myndar meiri­hluta með Fram­sókn, horfa for­eldrar á­fram fram á við­varandi úr­ræða­leysi?“

Fréttablaðið/Ernir

Svaraði Dagur því þá að Sam­fylkingin hefði brunnið fyrir leik­skóla­málum mjög lengi og sett þau á dag­skrá í Reykja­víkur­lista og í sam­starfi við aðra.

„Það sem er verið að vísa í hér er að í síðustu kosningum þá stigum við það skref sem enginn annar flokkur hafði gert. Við sögðum að við treystum okkur til þess að brúa bilið niður í tólf mánaða aldur á fjórum til sex árum. Nú eru fjögur af þeim liðin og við sjáum á á­ætlunum sem lagðar eru fyrir borgar­stjórn að við erum að ná þessum árangri,“ svaraði Dagur meðal annars.

Þá voru þeir Dagur og Einar spurðir út í full­yrðingar Hildar um daður þeirra á milli um sam­starf.

„Ég hef verið alveg skýr. Ef nú­verandi meiri­hluti heldur, þá finnst mér eðli­legt að hann haldi á­fram,“ svaraði Dagur.

Fréttablaðið/Ernir

Einar var þá spurður hvort hann væri að daðra og svaraði: „Nei nei. Þessir meiri­hluti ef hann heldur, þá vita kjós­endur ná­kvæm­lega hvað þeir fá. Þeir fá bara sömu kyrr­stöðuna.“

Hildur skaut þá inn í: „Ætlarðu að vera vara­dekk eins og Við­reisn síðast?“

Þá svaraði Einar: „Heyrðu halló, ég er í fram­boði fyrir Fram­sóknar­flokkinn, við erum miðju­flokkur, við erum til­búin til að vinna bæði hægri og vinstri. Þetta snýst um hvort kjós­endur vilji breytingar í borginni eða á­fram­haldandi stefnu.“

Þá skaut Líf Magneu­dóttir, odd­viti VG inn í: „Þetta er auð­vitað al­rangt, það eru allir að blikka Vinstri græn í þessu.“

Fréttablaðið/Ernir

Segist ekki ætla að undirgangast stefnu Samfylkingarinnar

Þá spurði Ómar Már Jóns­son, odd­viti Mið­flokksins, Einar hvort til greina kæmi að Fram­sókn gangi í meiri­hlutann.

„Ef Dagur missir meiri­hlutann, kemur þá til greina að þið gangið inn í meiri­hlutann undir forrystu Dags eins og Við­reisn gerði síðast og þá undir stefnu Sam­fylkingarinnar?“

Svaraði Einar þá: „Við munum ekki undir­gangast stefnu Sam­fylkingarinnar í neinu meiri­hluta­sam­starfi sem við förum í,“ svaraði Einar.

„Við í Fram­sókn höfum talað mjög skýrt fyrir okkar stefnu­málum. Við spurðum kjós­endur fyrir þessar kosningar, er ekki kominn tími til að breyta í Reykja­vík? Og við tölum um ýmsar breytingar sem við viljum ná fram sama hvort við myndum meiri­hluta til vinstri eða hægri, þetta snýst um mál­efnin og við ætlum að standa við það sem við segjum gagn­vart kjós­endum og það er bara svarið.“

Fréttablaðið/Ernir

„Fé­lags­hyggjuna inn og ný­frjáls­hyggjuna út?“

Sanna Maga­da­lena Mörtu­dóttir, odd­viti Sósíal­ista, nýtti tæki­færið og spurði Dag hvort til greina kæmi að skipta Við­reisn út úr meiri­hluta í stað Sósíal­ista.

„Fé­lags­hyggjuna inn og ný­frjáls­hyggjuna út?“ spurði hún. Dagur svaraði því að hann hefði sagt það að hann væri mjög á­nægður með nú­verandi meiri­hluta.

„Þannig ef hann heldur velli finnst mér það eðli­legasta valið. Við og þessir fjórir flokkar buðum Sósíal­istum upp á sam­tal síðast,“ bætti Dagur við.

Hann sagði meiri­hlutann hafa „kannski ekki alveg“ verið til í að stofna byggingar­fé­lag eða skipa­fé­lag borgarinnar líkt og Sósíal­istar hefðu lagt til. „Þetta var svo­lítið rót­tæk um­ræða.“

Fréttablaðið/Ernir