Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, sagði í kvöld í kappræðum Ríkisútvarpsins Dag B. Eggertsson, borgarstjóra og Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknarflokksins hafa „daðrað við hvorn annan“ upp á meirihlutasamstarf eftir kosningar.
Hildur bar upp spurningu fyrir Dag í hluta kappræðanna þar sem oddvitum gafst færi á að spyrja hver aðra einnar spurningar. Spurði Hildur Dag út í leikskólamálin og hvort foreldrar þurfi að horfa áfram fram á viðvarandi úrræðaleysi.
Framsókn mælist nú með fjóra borgarfulltrúa og er framtíð meirihlutans óljós, ýmist heldur hann á einum borgarfulltrúa eða rétt fellur í skoðanakönnunum degi fyrir kosningar.
„Ég ætla að fá að spyrja um leikskólamálin því þau skipta mig svo miklu máli,“ sagði Hildur. „Ég ætla að beina sjónum mínum að borgarstjóra,“ bætti hún svo við.
„Nú eru borgarstjóri og oddviti Framsóknar svolítið búnir að vera að daðra hver við annan um meirihlutasamstarf og borgarstjóri segir leikskólamálin vera leyst og oddviti Framsóknar segist vera búinn að gefast upp og er ekki best að gera ekkert?“
Skaut þá Einar inn í: „Er það? Ég á nýtt barn, mánaðargamalt. Nei ég er bara raunsær, það þarf bara fjölbreyttar lausnir og það er engin uppgjöf, það ermetnaður.“
Hélt Hildur áfram: „Ég spyr borgarstjóra. Ef þú myndar meirihluta með Framsókn, horfa foreldrar áfram fram á viðvarandi úrræðaleysi?“

Svaraði Dagur því þá að Samfylkingin hefði brunnið fyrir leikskólamálum mjög lengi og sett þau á dagskrá í Reykjavíkurlista og í samstarfi við aðra.
„Það sem er verið að vísa í hér er að í síðustu kosningum þá stigum við það skref sem enginn annar flokkur hafði gert. Við sögðum að við treystum okkur til þess að brúa bilið niður í tólf mánaða aldur á fjórum til sex árum. Nú eru fjögur af þeim liðin og við sjáum á áætlunum sem lagðar eru fyrir borgarstjórn að við erum að ná þessum árangri,“ svaraði Dagur meðal annars.
Þá voru þeir Dagur og Einar spurðir út í fullyrðingar Hildar um daður þeirra á milli um samstarf.
„Ég hef verið alveg skýr. Ef núverandi meirihluti heldur, þá finnst mér eðlilegt að hann haldi áfram,“ svaraði Dagur.

Einar var þá spurður hvort hann væri að daðra og svaraði: „Nei nei. Þessir meirihluti ef hann heldur, þá vita kjósendur nákvæmlega hvað þeir fá. Þeir fá bara sömu kyrrstöðuna.“
Hildur skaut þá inn í: „Ætlarðu að vera varadekk eins og Viðreisn síðast?“
Þá svaraði Einar: „Heyrðu halló, ég er í framboði fyrir Framsóknarflokkinn, við erum miðjuflokkur, við erum tilbúin til að vinna bæði hægri og vinstri. Þetta snýst um hvort kjósendur vilji breytingar í borginni eða áframhaldandi stefnu.“
Þá skaut Líf Magneudóttir, oddviti VG inn í: „Þetta er auðvitað alrangt, það eru allir að blikka Vinstri græn í þessu.“

Segist ekki ætla að undirgangast stefnu Samfylkingarinnar
Þá spurði Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins, Einar hvort til greina kæmi að Framsókn gangi í meirihlutann.
„Ef Dagur missir meirihlutann, kemur þá til greina að þið gangið inn í meirihlutann undir forrystu Dags eins og Viðreisn gerði síðast og þá undir stefnu Samfylkingarinnar?“
Svaraði Einar þá: „Við munum ekki undirgangast stefnu Samfylkingarinnar í neinu meirihlutasamstarfi sem við förum í,“ svaraði Einar.
„Við í Framsókn höfum talað mjög skýrt fyrir okkar stefnumálum. Við spurðum kjósendur fyrir þessar kosningar, er ekki kominn tími til að breyta í Reykjavík? Og við tölum um ýmsar breytingar sem við viljum ná fram sama hvort við myndum meirihluta til vinstri eða hægri, þetta snýst um málefnin og við ætlum að standa við það sem við segjum gagnvart kjósendum og það er bara svarið.“

„Félagshyggjuna inn og nýfrjálshyggjuna út?“
Sanna Magadalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista, nýtti tækifærið og spurði Dag hvort til greina kæmi að skipta Viðreisn út úr meirihluta í stað Sósíalista.
„Félagshyggjuna inn og nýfrjálshyggjuna út?“ spurði hún. Dagur svaraði því að hann hefði sagt það að hann væri mjög ánægður með núverandi meirihluta.
„Þannig ef hann heldur velli finnst mér það eðlilegasta valið. Við og þessir fjórir flokkar buðum Sósíalistum upp á samtal síðast,“ bætti Dagur við.
Hann sagði meirihlutann hafa „kannski ekki alveg“ verið til í að stofna byggingarfélag eða skipafélag borgarinnar líkt og Sósíalistar hefðu lagt til. „Þetta var svolítið róttæk umræða.“
