Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður er kominn í ótímabundið veikindaleyfi. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið. Hún segir að annar verði settur í hans stað til þriggja mánaða en vill ekki tjá sig nánar um málið.

Mikið hefur mætt á ríkislögmanni undanfarin misseri sem hefur haldið á málsvörn ríkisins í málum sem tengjast skipun dómara í Landsrétt, bæði fyrir íslenskum dómstólum og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) þar sem áfellisdómur féll gegn Íslandi í mars.

Landsréttarmálið er nú til meðferðar hjá efri deild MDE. Ríkislögmaður skilaði greinargerð vegna málsins í nóvember síðastliðnum og þá var mikið gagnamagn afhent dómnum 15. janúar síðastliðinn þegar frestur til að skila gögnum tengdum munnlegum málflutningi rann út.

Meðal gagnanna var yfirlýsing frá Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og frá Sigríði Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem hefur óskað eftir svokallaðri þriðja-aðila aðild að málinu. Þá var þess einnig getið í erindi frá ríkislögmanni dagsettu 15. janúar að málflytjendur í Strassborg þann 5. febrúar næstkomandi yrðu Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður og breski málflytjandinn Tim Otty, auk aðstoðar annarra lögmanna.

Verður ekki í Strassborg

Heimildir Fréttablaðsins herma að ekki hafi verið eining í ríkisstjórninni um þá ráðstöfun að ráða breska lögmanninn Tim Otty til að flytja Landsréttarmálið. Frumkvæðið hafi komið frá dómsmálaráðuneytinu en efasemdum hafi verið lýst um ákvörðunina bæði af hálfu embættis ríkislögmanns og forsætisráðuneytisins. Í ljósi veikinda Einars Karls liggur fyrir að hann mun ekki koma að málflutningnum í Strassborg 5. febrúar næstkomandi eins og til stóð.