„Ég er ekki búinn að fá neitt. Hef ekkert bréf fengið eða neitt. Er ég bara ekki á listanum?” segir Einar Kára­son rit­höfundur, að­spurður um við­brögð sín við að hafa ekki fengið út­hlutað úr launa­sjóði lista­manna fyrr í dag. „Ég á ekki til orð,” bætir hann við. 

Einar hafði ekki gáð að tölvu­pósti frá Rann­ís, sem út­hlutar úr sjóðnum, þegar blaða­maður náði af honum tali. Hann er einn far­sælasti rit­höfundur landsins og hefur bæði ritað og ort í tugi ára, og kom það honum því í opna skjöldu þegar honum var tjáð að hann væri ekki á meðal þeirra 79 rit­höfunda sem fá laun úr sjóðnum í ár. Einar sækir um ár­lega, enda rit­störfin hans lifi­brauð. Hann fékk laun til sex mánaða á síðasta ári og níu mánuði þar á undan. 

„Hvaða djöfulsins rugl er þetta,“ segir Einar. „Þetta er bara mjög skrítið. Í rauninni finnst mér að í öllum öðrum starfs­greinum hefði mönnum nú bara verið boðinn starfs­loka­samningur eða eitt­hvað. Ég er búinn að hafa at­vinnu af þessu í fjöru­tíu ár, og þetta er það eina sem ég lifi á. Þetta er furðu­legt,“ segir hann. 

Einnig vakti at­hygli að Hall­grímur Helga­son hafi ekki fengið út­hlutað úr sjóðnum, en að­spurður segist hann ekki hafa sótt um í ár. Hann vildi lítið tjá sig um það að öðru leyti en því að sala á bókum hans hafi gengið vel. Nýjasta skáld­saga hans, sem gefin var út fyrir jól, heitir Sex­tíu kíló af sól­skini. Auður Ava Ólafsdóttir var að sama skapi ekki á listanum en hún dró umsókn sína til baka, eftir að hafa unnið til bókmenntaverðlauna Norðurlandanna. 

Blaðið tók saman viðbrögð listamanna, bæði þeirra sem fögnuðu því að hafa fengið úr sjóðnum, og þeirra sem ekki fengu úthlutun