Einar Örn Thorlacius, lögfræðingur hjá Matvælastofnun, hjólaði í vinnuna í morgun, alla leið frá Reykjavík til Selfoss. „Það hjóla margir í vinnuna, það er svolítið lengra fyrir mig en marga aðra,“ segir Einar í samtali við Fréttablaðið.
Þetta er í níunda skiptið sem Einar hjólar frá Reykjavík til Selfoss en hann segist hafa lofað sjálfum sér að hjóla árlega í vinnuna eftir að hann byrjaði að vinna hjá Matvælastofnun.
Einar er búsettur í Þingholtunum í Reykjavík en vinnur í Matvælastofnun, sem staðsett er á Selfossi. Hjólaferðin var 60 kílómetrar og það tók hann rúmar fimm klukkustundir að komast í vinnuna. Einar lagði af stað klukkan hálf sex í morgun og var kominn á leiðarenda að verða ellefu.
„Ég stoppaði á Litlu kaffistofunni en það var því miður ekki búið að opna hana, ég settist á bekk þar í smá stund, svo hélt ég áfram og fékk mér hressingu á bensínstöð í Hveragerði og svo kláraði ég þessa tólf kílómetra á milli Hveragerðis og Selfoss,“ sagði Einar.

Einar hjólaði með vind í fangið allan tímann. „Það hefði verið skemmtilegra að hjóla í hina áttina með vindinn í bakið,“ sagði hann en hann lét vindinn ekki stoppa sig.
Einar hjólaði Hellisheiðina en segir að þetta sé ekki besta leiðin fyrir hjólandi einstaklinga, út af umferðinni. „Umferðin er mikil en maður verður að leiða þá hjá, maður getur ekki endalaust hjólað og látið alla umferðina fara í taugarnar á sér,“ segir Einar.
Aðspurður að því hvort hann hjóli líka bakaleiðina segist hann ekki venjulega gera það, venjulega taki hann strætó til baka. Í þetta skipti ætlar forstjóri Matvælastofnunar, sem er að sögn Einars geysileg hjólreiðakona, að hjóla með honum til baka til Reykjavíkur.
„Hún vill ólm hjóla til baka með mér og ég er að hugsa að láta eftir henni og láta á það reyna. Ég hef aldrei farið fram og til baka sama daginn,“ sagði Einar.
