Fari svo að Framsóknarflokkurinn gangi til viðræðna við Samfylkingu, Pírata og Viðreisn um meirihlutasamstarf í borginni mun flokkurinn gera skýlausa kröfu um að Einar Þorsteinsson, oddviti flokksins, verði borgarstjóri allt kjörtímabilið.
Heimildir Morgunblaðsins í dag herma að samhljómur hafi verið um þetta innan grasrótar flokksins á fundi sem nýkjörnir borgarfulltrúar héldu með henni í gærkvöldi. Fundinn sátu meðal annars stjórnir kjördæmasambands flokksins í Reykjavík og Félags ungra framsóknarmanna.
Í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að á fundinum hafi komið fram fullt traust til Einars og hinna borgarfulltrúa flokksins um að ákveða næstu skref. Er Einar sagður ætla að funda með borgarfulltrúum flokksins í dag þar sem ákvörðun verður tekin um meirihlutaviðræður til vinstri.