„Ég geng inn i þetta óttalaus,“ segir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, um viðræður um myndun meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn. Hann segir reynsluleysi er kemur að borgarmálum ekki valda sér kvíða.

Blaðamannafundur fór fram í morgun í Grósku þar sem formlegar meirihlutaviðræður Framsóknarflokksins, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar voru kynntar. Ef gengur saman verða Sjálfstæðismenn að sætta sig við að enda enn eina ferðina í minnihluta í borginni þrátt fyrir að vera stærsti flokkurinn.

„Mér þótti mikilvægt að gefa Hildi tíma til að sjá hvort Viðreisn eða VG væru tilbúin að fara í viðræður við þau, því það var lykill að meirihluta til hægri,“ svarar Einar að fundi loknum, inntur eftir því hvort hann hafi ekki viljað starfa með Sjálfstæðisflokknum. „En það bara einfaldlega gekk ekki upp hjá Hildi að sannfæra þau um að koma til leiks við hana,“ bætir hann við.

„Nú þarf að axla pólitíska ábyrgð og mynda meirihluta. Það er ekkert útilokað að það slitni upp úr þessum viðræðum eða þá að það gengur saman, en þetta er verkefnið núna,“ segir Einar.

Flokkarnir fjórir sem ræða nú formlega myndun meirihluta hafa samanlagt fjórtán borgarfulltrúa sem er rúmur meirihluti því 23 borgarfulltrúar mynda borgarstjórn Reykjavíkur.

Rætt verður við Einar á Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.